Mourinho hraunar yfir Caballero

Willy Caballero gerði sig sekan um hörmuleg mistök í leiknum …
Willy Caballero gerði sig sekan um hörmuleg mistök í leiknum í kvöld. AFP

Willy Caballero, markmaður argentínska landsliðsins í knattspyrnu átti ekki góðan dag þegar liðið tapaði 3:0 fyrir Króatíu í annarri umferð D-riðils heimsmeistaramótsins í Nis­hnij Novg­orod í kvöld.

Caballero kom Króötum á bragðið þegar hann ætlaði að vippa boltanum úr teignum á samherja sinn en það heppnaðist ekki betur en svo að boltinn fór beint á Ante Rebić sem var mættur í pressu á markmanninn. Rebić gerði engin mistök og þrumaði boltanum yfir markmanninn og kom Króötum í 1:0. Luka Modrić og Ivan Rakit­ić bættu svo við sitthvoru markinu og lokatölur því 3:0 og þarf Argentína nú að treysta á hagstæð úrslit til þess að komast áfram í sextán liða úrslit keppninnar.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United var ekki hrifinn af frammistöðu Caballero í leiknum. „Caballero í markinu eða ég sjálfur? Það myndi ekki skipta miklu máli. Við myndum verja sömu boltana,“ sagði Portúgalinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert