Allt í járnum í E-riðli eftir sigur Sviss

Xherdan Shaqiri tryggði Sviss sigur gegn Serbíu í uppbótartíma.
Xherdan Shaqiri tryggði Sviss sigur gegn Serbíu í uppbótartíma. AFP

Serbía og Sviss mættust í annarri umferð E-riðils heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Kaliningrad í dag en leiknum lauk með 2:1 sigri svissneska liðsins. Aleksandar Mitrović kom Serbum yfir strax á 5. mínútu og staðan því 1:0 í hálfleik.

Granit Xhaka jafnaði metin fyrir Sviss í upphafi síðari hálfleiks og það var svo Xherdan Shaqiri sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma eftir að rangstöðugildra Serbíu klikkaði og lokatölur því 2:1 fyrir Sviss. Serbía er í þriðja sæti E-riðils með 3 stig en Sviss er í öðru sætinu með 4 stig, líkt og Brasilía.

Brasilía og Serbía mætast í lokaumferð E-riðils í Moskvu á meðan Sviss og Kostaríka mætast í Nizhny Novgorod en Sviss fer áfram í sextán liða úrslitin með sigri á Kostaríka. Að sama skapi þurfa Serbar að vinna Brasilíu til þess að vera öruggir áfram. Fari svo að Sviss og Serbía vinni bæði sína leiki í lokaumferðinni þá mun Brasilía sitja eftir með sárt ennið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert