„Eyðilagði drauma þúsunda“

Argentínskir fjölmiðlar tæta argentínska landsliðið í sig í umfjöllun sinni eftir 3:0 tap Argentínumanna gegn Króötum á HM í knattspyrnu í gær.

„Hafi leikurinn á móti Íslendingum valdið efasemdum þá eyðilagði leikurinn á móti Króötum drauma þúsunda. Þeir sem höfðu enn trú á liðinu eftir leikinn á móti Íslendingum fengu þungt högg á höfuðið. Það er engin von. Þetta er ekki lið,“ er skrifað í argentínska blaðið Clarin í dag.

„Argentína var niðurlægð af Króatíu og það verður mjög erfitt að komast áfram upp úr riðlinum,“ segir í umfjöllun blaðsins La Capital.

„Argentína var vitni að martröð og tapaði leiknum 3:0. Leikurinn var merki um algjört hrun argentínska landsliðsins,“ segir í umsögn blaðsins La Voz.

„Þjálfarinn fann ekki áttavita fyrir lið sem hefur ekki skýran leikstíl. Hann breytti liðinu frá leiknum á móti Íslandi en það var ekki að sjá,“ segir í fótboltatímaritinu Olé.

Króatíska liðið er komið áfram eftir sigurinn í gær en í dag mætast Ísland og Nígería í Volgograd og hefst leikurinn klukkan 18 að staðartíma, 15 að íslenskum tíma.

Áhyggjufullur stuðningsmaður argentínska landsliðsins á leiknum í gær.
Áhyggjufullur stuðningsmaður argentínska landsliðsins á leiknum í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert