Markið breytti gangi leiksins

Ahmed Musa skorar fyrra mark sitt fyrir Nígeríu gegn Íslandi …
Ahmed Musa skorar fyrra mark sitt fyrir Nígeríu gegn Íslandi í dag. Markið sem Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari segir að hafi breytt gangi leiksins. mbl.is/Eggert

„Markið breytti leiknum gjörsamlega,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag eftir tap, 2:0, fyrir Nígeríu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi.

„Við vissum að Nígeríumenn væru hættulegir í skyndisóknum og við fengum á okkur mark og einnig þegar við vorum að færa okkur framar á leikvöllinn. Nígeríumenn léku agaðan leik. Við reyndum að svara fyrir okkur með því að sækja af meiri krafti upp kantana og koma sendingum fyrir markið en því miður þá tókst okkur ekki að svara fyrir okkur,“ sagði Helgi sem var ánægður með frammistöðu íslenska liðsins í fyrri hálfleik.

Helgi sagði ekkert í leik Nígeríu hefði komið íslenska liðinu eða stjórnendum þess á óvart.

Næsti leikur íslenska landsliðsins á HM verður við Króatíu á þriðjudaginn og með íslenskum sigri í leiknum gæti íslenska liðið komist áfram í 16-liða úrslit. Helgi sagði leikmenn og stjórnendur landsliðsins vera vonsvikna eftir úrslit dagsins. Ekki megi samt dvelja of lengi við það. „Við ætluðum að gera okkur besta í dag og gerðum það en það dugði ekki. Nígeríumenn gerðu vel. Gæðin eru svo sannarlega fyrir hendi í liði þeirra, nokkuð sem við vöruðum við fyrir leikinn.  Þess vegna er alls ekkert sjálfgefið að vinna þá. Hins vegar vorum við með tök á leiknum eftir fyrri hálfleikinn en eins og ég sagði fyrr þá breytti fyrsta mark þeirra gangi leiksins,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert