Steikjandi hiti í Volgograd á leikdegi

Landsliðið á æfingu á Volgograd Arena í gær.
Landsliðið á æfingu á Volgograd Arena í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það verður steikjandi hiti í Volgograd þegar Ísland mætir Nígeríu í 2. umferð riðlakeppni HM í knattspyrnu í dag.

Leikurinn hefst klukkan 18 að staðartíma, klukkan 15 að íslenskum, en þá verður hitastigið 31 gráða og heiðskírt. Það verða því aðrar aðstæður en þegar Ísland mætti Argentínu í Moskvu fyrir tæpri viku.

Stuðningsmenn íslenska landsliðsins ætla að hittast á stuðningsmannasvæði, Fan Zone, rétt eftir hádegi og hita vel upp fyrir leikinn en reiknað er með að 2-3.000 Íslendingar verði á Volgograd Arena í kvöld.

Með jafntefli eða sigri kemst Ísland upp í annað sæti í riðlinum á eftir Króötum sem tryggðu sér farseðilinn í 16-liða úrslitin í gær með því að vinna 3:0 sigur á móti Argentínu.

Staðan í riðlinum fyrir leik Íslands og Nígeríu er þessi:

6 stig - Króatía
1 stig - Ísland
1 stig - Argentína
0 stig - Nígería

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert