Margir möguleikar í stöðunni

Ragnar Sigurðsson, Kári Árnason, Rúrik Gíslason, Jón Daði Böðvarsson og …
Ragnar Sigurðsson, Kári Árnason, Rúrik Gíslason, Jón Daði Böðvarsson og Birkir Már Sævarsson á æfingu landsliðsins í Kabardinka í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fari svo að Nígería og Argentína gera jafntefli í lokaumferð D-riðilsins á HM í knattspyrnu á þriðjudaginn þá þurfa Íslendingar minnst tveggja marka sigur gegn Króötum en liðin eigast við í Rostov á sama tíma og Nígería og Argentína eigast við.

Króatía er með 6 stig í riðlinum er búið að tryggja sér sæti í 16 liða úrslitunum. Nígería er með 3 stig og markatöluna, 2:2, Ísland er með 1 stig og markatöluna 1:3 og Argentína er með 1 stig og markatöluna 1:4. Nígería, Ísland og Argentína eiga þar með öll möguleika á að fylgja Króatíu áfram í 16-liða úrslitin.

Endi lið með jafnmörg stig þá ræður markatalan úrslitum um sæti í riðlinum. Ef markamunurinn er sá sami gildir reglan um fleiri mörk skoruð. Ef svo ólíklega vill til að markatalan hjá Nígeríu og Íslands verði sú sama eftir leikina þrjá þá fer Nígería áfram þar sem liðið stendur þá betur í innbyrðisviðureignum.

Til þess að Argentínumenn komist í 16-liða úrslitin þá þurfa þeir að vinna Nígeríumenn og stóla á að Ísland tapi fyrir Króatíu. Þá myndu Argentínumenn enda með 4 stig, Nígeríumenn 3 og Íslendingar 1. Eða vinna sinn leik með meiri mun en Ísland myndi vinna Króatíu og komast uppfyrir íslenska liðið á markatölu.

Allt þetta ræðst á þriðjudaginn en lokaleikirnir í D-riðlinum hefjast báðir klukkan 21 að staðartíma, 18 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert