„Auðvitað erum við með plan B“

Kári Árnason og John Obi Mikel í skallaeinvígi í leiknum …
Kári Árnason og John Obi Mikel í skallaeinvígi í leiknum á föstudag. mbl.is/Eggert

„Við töpuðum leiknum og auðvitað var þá hægt að gera eitthvað betur. Það skrifast á okkur leikmennina,“ segir Kári Árnason, aðspurður hvort Ísland hafi ekki haft neitt „plan B“ sem hægt hefði verið að grípa til þegar liðið lenti undir í 2:0-tapinu gegn Nígeríu á HM í knattspyrnu.

„Auðvitað erum við með plan B, ákveðnar færslur sem við gerum þegar við þurfum að sækja mark. Skipulagið riðlaðist hins vegar fullmikið, og ég veit ekki af hverju,“ segir Kári, en hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Kabardinka í dag. Íslenski hópurinn heldur svo til Rostov síðdegis þar sem lokaleikur Íslands í D-riðlinum, gegn Króatíu, fer fram á þriðjudag. Tapleikurinn gegn Nígeríu var hins vegar enn til umræðu á fundinum í dag:

Vorum alveg með þetta lið

„Við vorum alveg með þetta lið, sem átti ekki skot í fyrri hálfleik. Við skulum ekki gleyma því. Fólk talar svolítið eins og að við „eigum“ að vinna Nígeríu. Það er enginn í liðinu sem hugsar þannig að við „eigum“ að vinna Nígeríu. Við hugsum að við getum unnið Nígeríu, og ætlum að vinna Nígeríu, en þetta er samt stórþjóð í fótbolta. Við vorum „underdogs“. Við höldum ekki að við séum það góðir að við mætum í leikinn og rústum Nígeríu, förum svo bara áfram og tökum Króatíu næst. Það er ekki þannig,“ segir Kári. Nígería komst yfir snemma í seinni hálfleik eftir mark úr skyndisókn.

„Leikskipulagið var frábært í fyrri hálfleik. Hann ver frábærlega frá Gylfa í aukaspyrnunni. Í stöðunni 1:0 hefði þetta verið allt annar leikur. Þeir fá svo skyndisókn eftir fast leikatriði hjá okkur, sem má ekki gerast, skora og leikurinn riðlast við þetta. Það á ekki að gerast. Við erum alltaf með plan B en það gekk ekki nógu vel upp. Við höfðum fá svör þegar þeir voru farnir að draga okkur framar og beita skyndisóknum. Einhvern veginn héldum við kannski ekki í þá, og ég veit ekki alveg af hverju það var,“ segir Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert