Dreymir um að jafna árangurinn 1998

Ivan Perisic í leik með Króötum á HM.
Ivan Perisic í leik með Króötum á HM. AFP

Ivan Perisic, einn af lykilmönnunum í liði Króata sem mætir Íslendingum í lokaumferð riðlakeppninnar á HM í knattspyrnu í Rostov á þriðjudaginn, vill að Króatar leiki sama leik og á HM 1998.

Króatar komu gríðarlega á óvart á HM í Frakklandi fyrir 20 árum með því að enda í þriðja sæti en á þessum árum voru leikmenn eins Zvonimir Boban, Robert Prosinecki og Davor Suker í liði þeirra.

Króatar hafa unnið báða leiki sína á HM í Rússlandi. Þeir byrjuðu á því að vinna 2:0 sigur á Nígeríumönnum og fylgdu þeim sigri eftir með því að leggja Argentínumenn að velli 3:0 og tryggja sér þar með sæti í 16-liða úrslitunum.

„Það hefur verið talað mikinn um samanburð á milli liðs okkar í dag og liðsins 1998. Liðið gerði kraftaverk í Frakklandi 1998. Ég var þá níu ára gamall og horfði á þessa leiki og mig dreymir um að komast í svipaða stöðu. Nú erum við hér og vonandi getum gert eitthvað svipað. Við erum reiðubúnir til þess,“ segir Perisic.

„Við töldumst ekki til þeirra liða sem þóttu sigurstranglegast fyrir HM og við verðskulduðum það heldur ekki. Nú þurfum við bara að halda áfram á sömu braut,“ segir sóknarmaðurinn snjalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert