Enginn of stór að sitja á bekknum

Emil og Kári á fréttamannafundinum í morgun.
Emil og Kári á fréttamannafundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alltaf fúlt að vera á bekknum en það er enginn of stór að sitja á honum,“ sagði landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í knattspyrnu í Kabardinka í morgun.

Emil kom ekkert við sögu í tapleiknum gegn Nígeríu á föstudaginn en hann átti virkilegan góðan leik í 1:1 jafntefli Íslands gegn Argentínu í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

„Það var búið að ákveða fyrir leikinn að breyta um leikaðferð og svona gengur þetta bara fyrir sig í fótboltanum.  Ég verð klár í næsta leik ef svo ber undir,“ sagði Emil.

Emil hitaði vel upp í hálfleik í leiknum á móti Nígeríu og ræddi Helgi Kolviðsson við hann.

„Aron Einar fékk högg á síðuna og það var ekki vitað hvort hann gæti haldið. En ég hafði engar áhyggjur vitandi hvernig Aron er. Nú erum við búnir að afgreiða Nígeríuleikinn og byrjaðir að einbeita okkur að leiknum á móti Króatíu. Það verður allt undir í þeim leik,“ sagði Emil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert