Náum alltaf að gera hið ómögulega

Gylfi Þór Sigurðsson heldur í vonina um að Ísland komist …
Gylfi Þór Sigurðsson heldur í vonina um að Ísland komist í 16-liða úrslit á HM. mbl.is/Eggert

„Við höfum lent í þessu áður,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson um þá stöðu Íslands að þurfa að vinna Króatíu en einnig treysta á hagstæð úrslit í leik Argentínu og Nígeríu, til að komast áfram í 16-liða úrslit á HM í knattspyrnu.

„Síðasta dæmið er Finnlandsleikurinn úti í riðlakeppninni. Hefðum við litið á stöðuna þá var þetta mjög erfið staða sem við vorum komnir í þá en við einhvern veginn náum alltaf að koma til baka og gera það sem er eiginlega ómögulegt. Ég vona að það verði aftur upp á teningnum núna,“ sagði Gylfi í samtali við Pétur Hreinsson á vef FIFA.com. Ísland vann einmitt þrjá síðustu leiki sína í undankeppni HM, eftir tapið gegn Finnum sem Gylfi nefnir, og fékk aðstoð frá Finnum sem náðu í stig gegn Króatíu.

Ísland endaði fyrir ofan Króatíu í undankeppninni og vann síðasta leik liðanna, 1:0, á Laugardalsvelli. Gefur það liðinu forskot?

„Já og nei. Við vitum alveg að þetta er eitt af bestu landsliðunum í heiminum í dag. Þú sérð hvernig þeir eru búnir að vera að spila upp á síðkastið. Ég held að það breyti engu hvort að við höfum unnið þá fyrir einu ári, eða tapað fyrir þeim fyrir þremur árum. Þetta verður allt öðruvísi leikur núna. En jú, auðvitað er frábært að við höfum sýnt að við getum unnið þetta lið. Það er erfitt að brjóta þá niður. Þeir eru með gott lið bæði fram á við og til baka. Þetta mun taka tíma en við höfum svo sem engu að tapa og einhvern veginn er bara allt undir okkur komið að ná í góð úrslit og vonast svo eftir hagstæðum úrslitum úr hinum leiknum,“ sagði Gylfi, sem vill gjarnan tryggja Íslendingum öllum fleiri leiki á HM:

„Auðvitað yrði það bara stórkostlegur árangur að komast upp úr þessum riðli. En ég held bara að það hjálpi yngri kynslóðinni að við séum á HM og fyrir yngri krakka á Íslandi að horfa á landið sitt. Sitt landsliðið vera að spila á þessu móti. Það er náttúrlega frábært og eitthvað sem ég get ekki alveg ímyndað mér því að þetta var ekki þannig þegar ég var ungur. Ég held að það geri ekkert nema jákvætt,“ sagði Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert