Söguleg markaveisla

Markaveislan sem boðið hefur verið upp á í G-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Rússlandi, þar sem England og Belgía hafa skorað átta mörk hvort um sig í leikjum gegn Túnis og Panama er sú mesta í einum riðli á HM í sextíu ár.

Í fjórum leikjum riðilsins hafa verið skoruð 20 mörk, eða fimm að meðaltali í leik. Þetta fór rólega af stað, Belgía vann Panama 3:0 og England marði sigur á Túnis, 2:1. En um helgina fór allt á flug, Belgía vann Túnis 5:2 og England burstaði Panama 6:1.

Til að halda meðaltalinu í 5 mörkum þarf þó að skora samtals tíu mörk í leikjunum tveimur í lokaumferðinni þegar Belgía mætir Englandi í úrslitaleik um efsta sætið og Túnis mætir Panama í leik tveggja liða sem þegar eru úr leik.

Það hefur aðeins tvisvar gerst í sögu HM að skoruð hafi verið meira en fimm mörk að meðaltali í riðli í lokakeppni HM.

Markasúpa í B-riðlinum í Sviss

Metið sem aldrei hefur verið slegið var sett á HM í Sviss árið 1954 þegar 32 mörk voru skoruð í 4 leikjum B-riðils. Vestur-Þýskaland vann Tyrkland 4:1, Ungverjaland vann Suður-Kóreu 9:0, Ungverjaland vann Vestur-Þýskaland 8:3 og Tyrkland vann Suður-Kóreu 7:0. Þar með voru gerð 8 mörk að meðaltali.

Í þeirri keppni voru aðeins leiknar tvær umferðir í riðlinum og tvö efstu liðin að þeim loknum fóru áfram. Vestur-Þýskaland og Tyrkland þurftu þó að spila aukaleik og þar voru skoruðu enn fleiri mörk því Þjóðverjar unnu hann 7:2.

Markametshafinn kom við sögu í Svíþjóð

Fjórum árum síðar, í Svíþjóð árið 1958, var skorað 31 mark í 6 leikjum í B-riðli, 5,17 að meðaltali í leik, en þá var leikið í riðlum með sama fyrirkomulagi og gert hefur verið síðan - allir mæta öllum. Þarna áttu í hlut Frakkland, Júgóslavía, Paragvæ og Skotland, og í mesta markaleiknum unnu Frakkar sigur á Paragvæ, 7:3. Þar skoraði Just Fontaine þrennu en hann varð markakóngur HM 1958 með 13 mörk og það er markamet sem staðið hefur síðan.

En reyndar hefur einu sinni áður verið leikinn riðill þar sem skoruð voru 8 mörk að meðaltali í leik. Það var á HM í Brasilíu árið 1950 en vegna forfalla stóðu bara tvö lið eftir í D-riðli keppninnar. Úrúgvæ vann Bólivíu 8:0 í eina leiknum sem fór fram.

John Stones miðvörður Englands fagnar öðru tveggja marka sinna gegn …
John Stones miðvörður Englands fagnar öðru tveggja marka sinna gegn Panama í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert