„Allir elska Messi“

Messi á æfingu með Argentínu í dag.
Messi á æfingu með Argentínu í dag. AFP

„Við elskum þennan frábæra leikmann, Messi, allir elska hann,“ sagði Þjóðverjinn Gernot Rohr landsliðsþjálfari Nígeríu við fréttamenn í dag en Nígería og Argentína eigast við í lokaumferð riðlakeppninnar á HM á morgun. Á sama tíma leika Ísland og Króatía en Nígería, Ísland og Argentína berjast um að fylgja Króatíu áfram í 16-liða úrslitin.

„Spurningin er ekki sú hvort þetta sé síðasta HM hjá Messi eða ekki. Spurningin fyrir okkur er hvort við komumst áfram. Við erum ekki hér til að horfa á hann spila. Við erum hér til að ná í úrslit, við erum atvinnumenn,“ sagði Rohr.

Messi hefur enn ekki náð að skora á HM en Argentínumenn eru aðeins með eitt stig sem þeir fengu gegn Íslendingum í fyrstu umferðinni en þeir steinlágu svo fyrir Króötum 3:0.

Argentínumenn verða að vinna Nígeríumenn til að eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslitin. Ekki er víst að sigur dugi því ef Íslendingar vinna Króata ræður markatalan því hvort liðið fer áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert