Vill ekki hætta fyrr en hann vinnur HM

Lionel Messi, fyrirliði argentínska landsliðsins í knattspyrnu, vill ekki leggja landsliðsskóna á hilluna fyrr en hann vinnur heimsmeistarakeppnina. Það hefur ekkert gengið upp hjá Argentínu og Messi á HM í Rússlandi sem nú fer fram en liðið er í fjórða sæti D-riðils keppninnar með 1 stig eftir fyrstu tvo leikina.

„Þetta skiptir öllu máli því heimsmeistarakeppnin er sérstök keppni í augum argentínsku þjóðarinnar og þetta skiptir mig miklu máli líka. Það hefur lengi verið draumur minn að lyfta heimsmeistarabikarnum og upplifa sigurtilfinninguna sem því fylgir.“

Ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um þetta augnablik og það myndi færa milljónum manna mikla gleði. Við megum ekki gefa þennan draum upp á bátinn. Ég hef unnið marga stóra titla á ferlinum en metnaðurinn er ennþá fyrir hendi. Ég vil ekki hætta með landsliðinu fyrr en ég vinn HM,“ sagði Messi að lokum.

Argentína mætir Nígeríu í lokaleik sínum í D-riðli heimsmeistaramótsins í Pétursborg á morgun en liðið verður að vinna til þess að eiga möguleika á að fara áfram í sextán liða úrslitin. Í hinum leik D-riðilsins mætast Ísland og Króatía í Rostov en íslenska liðið verður einnig að vinna, helst með tveimur mörkum eða meira, til þess að eiga möguleika á að fara áfram.

Króatía er á toppi riðilsins með sex stig, Nígería er í öðru sætinu með þrjú stig og Ísland og Argentína koma þar á eftir með eitt stig. Argentína er með markatöluna mínus þrír en Ísland með markatöluna mínus tveir.

Lionel Messi þráir ekkert heitara en að vinna HM með …
Lionel Messi þráir ekkert heitara en að vinna HM með Argentínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert