Deschamps stoltur af unga liðinu sínu

Didier Deschamps, og Kylian Mbappe, sem valinn var besti ungi …
Didier Deschamps, og Kylian Mbappe, sem valinn var besti ungi leikmaðurinn á HM. AFP

„Við gerðum ekki allt rétt í dag en við höfðum þá andlegu og sálfræðilegu þætti sem þurfti til í þessari heimsmeistarakeppni. Við gerðum ekki mikið í fyrri hálfleik en vorum 2:1 yfir,“ sagði Didier Deschamps, þjálfari heimsmeistara Frakklands, sem lagði Króatíu að velli, 4:2, í úrslitaleik á Luzniki-vellinum í Moskvu.

„Ég var með mjög ungan hóp. 14 þeirra voru að reyna að finna sig á HM. En gæðin voru til staðar. Ég er stoltastur af hópnum fyrir það að ná að vera í réttu andlegu ástandi fyrir mót af þessari stærð. Ég endurtók það aftur og aftur: Aldrei gefast upp. Ekki gefa neitt upp á bátinn,“ sagði Deschamps en meðalaldurinn í franska landsliðshópnum er 26 ár. 

Deschamps segir leikstíl Frakkanna sem skilaði þeim titlinum vera aukatriði.

„Auðvitað mun fólk spyrja sig hvort Frakkar hafi unnið keppnina á fallegan hátt. Allt í lagi, en það erum við sem verðum heimsmeistarar næstu fjögur árin. Það er það sem fólk þarf að muna eftir,“ sagði Deschamps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert