Mbappé skaut Frökkum áfram – Danir í úrslitaleik

Kylian Mbappé skorar sigurmarkið.
Kylian Mbappé skorar sigurmarkið. AFP/Franck Fife

Ríkjandi heimsmeistarar Frakka urðu í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar með 2:1-sigri á Danmörku. Kylian Mbappé skoraði bæði mörk franska liðsins. 

Á meðan Frakkland er komið í 16-liða úrslit á Danmörk úrslitaleik fyrir höndum gegn Ástralíu næstkomandi miðvikudag. Þar verða Danir að vinna, til að eiga möguleika á að fylgja Frökkum upp úr riðlinum. Ástralíu nægir jafntefli. 

Jafnræði var með liðunum framan af leik og tókst hvorugu liðinu að skapa sér færi á fyrstu 10 mínútunum. 

Andreas Christensen fagnar jöfnunarmarki sínu.
Andreas Christensen fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP/Natalia Kolesnikova

Eftir 20 mínútna leik var Kylian Mbappé við það að sleppa í gegn, en Andreas Christensen tók hann niður og fékk gult spjald að launum. Mínútu síðar átti Adrien Rabiot fastan skalla að marki, en Kasper Schmeichel í marki Dana varði vel. Frakkar voru því að ná tökum á leiknum. 

Það tók þó nokkuð langan tíma fyrir franska liðið að skapa sér næsta færi og það fékk Antoine Griezmann á 33. mínútu. Hann komst þá aftur fyrir vörn danska liðsins en Schmeichel var vel staðsettur og varði með löppunum. 

Frakkar fagna fyrsta marki leiksins.
Frakkar fagna fyrsta marki leiksins. AFP/Antonin Thuillier

Þremur mínútum seinna fengu Danir sitt fyrsta góða færi í fyrri hálfleik. Andreas Cornelius komst aftur fyrir frönsku vörnina og átti fast skot, en framhjá nærstönginni. Á 37. mínútu fékk Olivier Giroud fínt færi fyrir Frakka, en skallaði framhjá úr teignum eftir sendingu frá Mbappé og var staðan áfram 0:0. 

Kylian Mbappé fékk sitt fyrsta færi á 40. mínútu þegar Ousmane Dembélé átti flotta sendingu út í teiginn frá hægri en Mbappé skóflaði boltanum vel yfir markið. Reyndist það síðasta tækifæri fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi markalaus. 

Ousmane Dembélé og Joakim Mæhle eigast við.
Ousmane Dembélé og Joakim Mæhle eigast við. AFP/Natalia Kolesnikova

Mbappé átti einnig fyrsta færi seinni hálfleiks á 56. mínútu er hann hristi Joachim Andersen af sér á miðjum vellinum, brunaði alla leið í teig Dana, og lét vaða en Schmeichel varði enn og aftur. Fjórum mínútum síðar fékk Antoine Griezmann eitt besta færi leiksins, en sá franski setti boltann vel yfir mark Dana, þegar hann var kominn einn í gegn. 

Fyrsta markið kom loks mínútu síðar þegar Theo Hernández og Mbappé léku vel saman, sem endaði með að Mbappé skoraði af stuttu færi. Frakkar voru þó ekki lengi yfir, því aðeins sjö mínútum síðar jafnaði Andreas Christensen með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu eftir að Joachim Andersen vann fyrsta boltann. 

Danir voru nálægt því að komast yfir á 73. mínútu en Hugo Lloris gerði mjög vel í að verja frá Jesper Lindström, sem átti fast skot í teignum. 

Kylian Mbappé á fleygiferð í dag.
Kylian Mbappé á fleygiferð í dag. AFP/Paul Ellis

Það voru hins vegar Frakkar sem komust aftur yfir á 86. mínútu þegar Mbappé skoraði sitt annað mark. Kláraði hann þá af stuttu færi á fjærstönginni eftir fyrirgjöf hjá Griezmann frá hægri. Reyndist það sigurmarkið. 

Það var sjónarspil fyrir leik.
Það var sjónarspil fyrir leik. AFP/Antonin Thuillier

Lið Frakklands:
Mark: Hugo Lloris
Vörn: Jules Koundé, Raphael Varane (Ibrahima Konaté 75.), Dayot Upamecano, Theo Hernández
Miðja: Aurélien Tchouaméni, Antoine Griezmann (Youssouf Fofana 90.), Adrien Rabiot,
Sókn: Ousmane Dembélé (Kingsley Coman 75.), Olivier Giroud (Marcus Thuram 60.), Kylian Mbappé

Lið Danmerkur:
Mark: Kasper Schmeichel
Vörn: Joachim Andersen, Andreas Christensen, Victor Nelsson
Miðja: Rasmus Kristensen (Alexander Bah, 90.), Jesper Lindström (Christian Nörgaard 85.), Pierre-Emilie Höjbjerg, Christian Eriksen, Joakim Mæhle, Mikkel Damsgaard (Kasper Dolberg 75.)
Sókn: Andreas Cornelius (Martin Braithwaite 46.) 

Olivier Giroud og Dayot Upamecano hita upp fyrir leik.
Olivier Giroud og Dayot Upamecano hita upp fyrir leik. AFP/Franck Fife
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert