HM í dag: Síðustu leikir í annarri umferð

Brasilíumenn sigruðu Serba 2:0 með tveimur mörkum frá Richarlison í …
Brasilíumenn sigruðu Serba 2:0 með tveimur mörkum frá Richarlison í fyrstu umferðinni og þeir mæta Sviss í dag. AFP/Nelson Almeida

Önnur umferðin í G- og H-riðlum heimsmeistaramóts karla í fótbolta verður leikin í dag og í kvöld og að þeim fjórum leikjum loknum hafa öll liðin leikið tvo leiki á mótinu í Katar.

Í G-riðli unnu Brasilía og Sviss fyrstu leiki sína. Brasilía vann Serbíu 2:0 og Sviss vann Kamerún 1:0.

Í dag mætast Kamerún og Serbía, bæði stigalaus, í fyrsta leiknum klukkan 10 og það er algjör úrslitaleikur fyrir þau bæði um að eiga möguleika fyrir lokaumferðina.

Brasilía og Sviss eigast síðan við klukkan 16 í dag. Þar gæti sigurliðið tryggt sér sæti í sextán liða úrslitunum, en það veltur að hluta á því hvernig úrslitin verða í fyrri leik dagsins.

Í H-riðli vann Portúgal sigur á Gana í fyrstu umferðinni, 3:2, en Suður-Kórea og Úrúgvæ gerðu markalaust jafntefli.

Í dag eigast við Suður-Kórea og Gana klukkan 13 og sigurliðið í þeim leik mun eiga ágæta möguleika á að komast áfram.

Loks eigast við Portúgal og Úrúgvæ klukkan 19 en það eru tvö líklegri liðin í riðlinum. Tapliðið í kvöld gæti hins vegar verið í slæmri stöðu fyrir lokaumferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert