Portúgalinn missir af leik gegn Portúgal

Paulo Bento fokreiddist í leikslok í viðureign Suður-Kóreu og Gana …
Paulo Bento fokreiddist í leikslok í viðureign Suður-Kóreu og Gana í dag. AFP/Jung Yeon-je.

Suður-Kóreubúar verða án þjálfara síns, Paulo Bento, þegar þeir mæta Portúgal í lokaumferðinni í H-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Katar.

Bento, sem er Portúgali og missir því af því að mæta löndum sínum, fékk rauða spjaldið frá Anthony Taylor dómara strax eftir að leikur Suður-Kóreu og Gana var flautaður af í Al Rayyan í dag.

Gana vann leikinn, 3:2, en Taylor flautaði til leiksloka eftir að Suður-Kóreubúar höfðu fengið hornspyrnu, sína tólftu í leiknum.

Bento hellti úr skálum reiði sinnar yfir Taylor en uppskar ekkert annað en rautt spjald og leikbann.

Hann var þjálfari portúgalska landsliðsins um fjögurra ára skeið, frá 2010 til 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert