Holland og Senegal í 16-liða úrslit

Kalidou Koulibaly fagnar öðru marki Senegal.
Kalidou Koulibaly fagnar öðru marki Senegal. AFP/Yeon-je Jung

Holland og Senegal tryggðu sér í dag sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar með sigrum í lokaumferð riðilsins. Mæta þau tveimur efstu liðum B-riðils í 16-liða úrslitum. 

Senegal vann nauman 2:1-sigur á Ekvador. Ismaila Sarr skoraði úr víti á 44. mínútu og Kalidou Koulibaly á 70. mínútu. Moisés Caicedo jafnaði fyrir Ekvador á 67. mínútu. Senegal mætir liðinu sem endar í efsta sæti B-riðils í 16-liða úrslitum. 

Frenkie De Jong skorar annað mark Hollendinga.
Frenkie De Jong skorar annað mark Hollendinga. AFP/Alberto Pizzoli

Holland vann afar öruggan 2:0-sigur á heimamönnum í Katar. Cody Gakpo kom Hollandi yfir á 26. mínútu og Frenkie de Jong bætti við öðru marki á 50. mínútu. Holland mætir liðinu sem endar í öðru sæti B-riðils í 16-liða úrslitum. 

Holland lauk leik í A-riðli með sjö stig, Senegal varð í öðru sæti með sex, Ekvador í þriðja með fjögur og Katar rak lestina, án stiga. 

Senegal var nálægt því að skora fyrsta mark riðilsins í dag þegar Idrissa Gueye, leikmaður Everton, fékk afar gott færi en setti boltann fram hjá. Í leik Hollands og Katar voru Hollendingar mun sterkari í upphafi leiks og Daley Blind fékk fínt færi til að skora fyrsta markið snemma leiks en Meshaal Barsham í marki Katar varði vel. 

Ismaila Sarr kemur Senegal yfir.
Ismaila Sarr kemur Senegal yfir. AFP/Issouf Sanogo

Idrissa Gueye fékk enn betra færi til að koma Senegal yfir gegn Ekvador á 9. mínútu er hann slapp einn í gegn en setti boltann fram hjá. Senegal var því líklegra liðið, á meðan Holland var töluvert líklegra liðið gegn heimamönnum í Katar. 

Gody Gakpo, sóknarmaður Hollands, sá um að gera fyrsta mark dagsins á 26. mínútu. Hann slapp þá inn fyrir vörn Katar og kláraði með hnitmiðuðu skoti í bláhornið eftir sendingu frá Davy Klaassen.

Senegal komst síðan verðskuldað yfir á 44. mínútu gegn Ekvador. Ismaila Sarr fékk þá vítaspyrnu, sem hann skoraði sjálfur úr. Piero Hincapie tók hann niður í teignum og var um klára vítaspyrnu að ræða. 

Ismaila Sarr kom Senegal yfir.
Ismaila Sarr kom Senegal yfir. AFP/Issouf Sanogo

Urðu mörkin í fyrri hálfleik ekki fleiri og voru Holland og Senegal því á leiðinni í 16-liða úrslitin. 

Holland tvöfaldaði forskot sitt á 50. mínútu. Meshaal Barsham varði vel frá Memphis Depay í góðu færi en Frenkie de Jong var fyrstur að átta sig í teignum og skoraði af öryggi. 

Ekvador jafnaði gegn Senegal á 67. mínútu þegar Moisés Caicedo skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu. Var þá Ekvador á leiðinni í 16-liða úrslit. Það entist ekki lengi því Kalidou Koulibaly kom Senegal aftur yfir aðeins þremur mínútum seinna með góðri afgreiðslu í teignum eftir aukaspyrnu. 

Daley Blind í fínu færi í dag.
Daley Blind í fínu færi í dag. AFP/Karim Jaafar

Seven Berhuis var nálægt því að skora þriðja mark Hollands í uppbótartíma er hann sneri boltanum með tilþrifum fram hjá Meshaal Barsham í marki Katar en boltinn hafnaði í þverslánni. Það kom ekki að sök, því sigur Hollands var öruggur og tryggði liðið sér toppsæti riðilsins. 

Ekvador reyndi hvað það gat að ná inn jöfnunarmarki gegn Sengal, en allt kom fyrir ekki. Afríkuþjóðin fór áfram og Suður-Ameríkuþjóðin sat eftir með sárt ennið. 

Gonzalo Plata og Pathe Cisse eigast við í dag.
Gonzalo Plata og Pathe Cisse eigast við í dag. AFP/Raul Arboleda

Lið Ekvador:
Mark: Hernán Galíndez.
Vörn: Ángelo Preciado (Jackson Porozo 85.), Félix Torres, Piero Hincapié, Pervis Estupinán.
Miðja: Alan Fraco (Jeremy Sarmiento 46.), Carlos Gruezo (José Cifuentes 46.), Moisés Caicedo.
Sókn: Gonzalo Plata, Michael Estrada (Djorkaeff Reasco 64.), Enner Valencia.

Lið Senegals:
MarkEdouard Mendy.
VörnYoussouf Sabaly, Kalidou Koulibaly, Abdou Diallo, Ismail Jakobs.
MiðjaIdrissa Gana Gueye, Papa Gueye, Pathe Ciss (Nampalys Mendy 75.).
SóknIliman Ndiaye (Ahmadou Dieng 75.), Boulaye Dia (Pepe Cissé 90.), Ismaila Sarr. 

Lið Hollands:
Mark: Andries Noppert.
Vörn: Jurriën Timber, Virgil van Dijk, Nathan Aké.
Miðja: Denzel Dumfries, Marten de Roon (Teun Koopmeiners 83.), Davy Klaassen (Seven Berhuis 66.), Frenkie de Jong (Kenneth Taylor 86.), Daley Blind.
Sókn: Gody Gakpo (Wout Weghorst 83.), Memphis Depay (Vincent Janssen 66).

Lið Katar:
Mark: Meshaal Barsham.
Vörn: Ismaeel Mohammad (Musab Kheder 85.), Pedro Miguel, Boualem Khoukhi, Abdelkarim Hassan, Homam Amhed.
Miðja: Hassan Al Haydos (Ali Assadalla 65.), Assim Madibo (Karim Boudiaf 65.), Abdulaziz Hatem (Ahmed Alaaeldin 85.).
Sókn: Almoez Ali (Mohammed Muntari 65.), Akram Afif.

Lið Ekvadora og Senegal gera sig klára.
Lið Ekvadora og Senegal gera sig klára. AFP/Raul Arboleda
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert