Ítalanum sleppt úr haldi

Mario Ferri er nú laus úr haldi.
Mario Ferri er nú laus úr haldi. AFP/Odd Andersen

Ítalanum Mario Ferri, sem hljóp inn á völlinn í seinni hálfleik þegar Portúgal og Úrúg­væ kepptu á heims­meist­ara­móts karla í knattspyrnu í gær, hefur verið sleppt úr haldi, samkvæmt upplýsingum frá ítalska utanríkisráðuneytinu.

Ferri, sem var á vellinum í um hálfa mínútu áður en öryggisverðir fylgdu honum út af, hljóp um með regnbogafána og klæddur í stuttermabol sem á stóð „Virðing fyrir írönskum konum“ og „Björgum Úkraínu“.

Samkvæmt upplýsingum frá ítalska utanríkisráðuneytinu hefur honum verið sleppt úr haldi eftir þetta uppátæki, án frekari afleiðinga.

Eins og frægt er hefur Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) hótað að refsa þeim þjóðum sem ætluðu að sýna samstöðu með hinsegin samfélaginu með því að bera regnbogafyrirliðabönd á HM í Katar þar sem samkynhneigð er ólögleg.

FIFA hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir þau viðbrögð og hafa formenn knattspyrnusambanda lýst yfir gríðarlegri óánægju með ákvörðunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert