Brasilía og Króatía mæta spútnikliðunum

Casemiro skoraði sigurmark Brasilíu gegn Sviss.
Casemiro skoraði sigurmark Brasilíu gegn Sviss. AFP/Nelson Almeida

Sextán liða úrslit heimsmeistaramóts karla í fótbolta halda áfram í Katar í kvöld með tveimur leikjum. Annars vegar mætast Japan og Króatía og hins vegar Brasilía og Suður-Kórea.

Leikur Japana og Króata verður flautaður á klukkan 15. Króatía er silfurliðið frá því í Rússlandi fyrir fjórum árum og tryggði liðið sér sæti í útsláttarkeppninni með því að vinna 4:1-sigur á Kanada og gera tvö markalaus jafntefli við Marokkó og Belgíu.

Leikir Japana hafa verið öllu meira spennandi, því liðið vann bæði Þýskaland og Spán í riðlakeppninni. Þess á milli tapaði Japan óvænt fyrir Kostaríka. Það virðist því henta Japan vel að spila við Evrópuþjóðir.

Flautað verður til leiks klukkan 19 hjá Brasilíu og Suður-Kóreu. Eins og oftast eru Brasilíumenn sigurstranglegir á mótinu, en 0:1-tap fyrir Kamerún í lokaleik riðlakeppninnar er ákveðið áhyggjuefni. Á undan þeim leik vann Brasilía 2:0-sigur á Serbíu og 1:0 gegn Sviss.

Stórstjarnan Neymar hefur verið að glíma við meiðsli og er óvíst hvort hann verði klár í slaginn í kvöld, en hann hefur æft með brasilíska liðinu í aðdraganda leiksins. 

Suður-Kóreu nægði einn sigur til að komast í 16-liða úrslitin. Hann kom gegn Portúgal í lokaumferð riðlakeppninnar, 2:1. Fram að því hafði liðið gert markalaus jafntefli við Úrúgvæ og tapað fyrir Gana, 2:3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert