Heimanámið var þúsund víti

Luis Enrique á hliðarlínunni í Katar.
Luis Enrique á hliðarlínunni í Katar. AFP/Javier Soriano

Luis Enrique, landsliðsþjálfari Spánar í fótbolta, hefur lítinn áhuga á að falla úr leik í vítakeppni á öðru stórmótinu í röð. Enrique greindi frá því á blaðamannafundi í dag að hann hefði skipað öllum leikmönnum spænska hópsins að taka þúsund víti á milli landsleikjahléa.

Spánn féll úr leik gegn verðandi Evrópumeisturum Ítalíu á EM á síðasta ári, eftir tap í vítakeppni. Enrique vill því að sínir menn verði klárir í slaginn, ráðist úrslit í vítakeppni á HM í Katar.

„Fyrir ári síðan sagði ég leikmönnum að heimanámið þeirra yrði að taka þúsund víti. Ég hef trú á að þeir hafi unnið heimavinnuna. Það er ekki nóg að byrja að æfa vítin þegar þú ert komin á stórmót. Vítakeppnir eiga ekki að vera lotterí,“ sagði Enrique í dag.

„Það er allt undir þegar þú stígur á punktinn. Ef þú hefur æft þig þúsund sinnum, geturðu tekið víti nákvæmlega eins og þú æfðir það,“ bætti hann við.

Spánn leikur við Marokkó í 16-liða úrslitum á morgun klukkan 15. Spánn vann 7:0-sigur á Kosta Ríka í fyrsta leik riðlakeppninnar, gerði síðan 1:1-jafntefli við Þýskaland og tapaði óvænt fyrir Japan, 1:2.

Marokkó gerði markalaust jafntefli við Króatíu í fyrsta leik og vann svo 2:0 og 2:1-sigra á Belgíu og Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert