Króatía sló Japan úr leik eftir vítakeppni

Dominik Livakovic var hetja Króata í vítakeppninni.
Dominik Livakovic var hetja Króata í vítakeppninni. AFP/Ina Fassbender

Króatía er komin áfram í 8-liða úrslit heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu eftir sigur gegn Japan í vítaspyrnukeppni í Al Wakrah í Katar í dag.

Daizen Maeda kom Japan yfir á 43. mínútu áður en Ivan Perisic jafnaði metin fyrir Króatíu á 56. mínútu. Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingu og því var gripið til vítaspyrnukeppni þar sem Króatar höfðu betur, 3:1.

Það verða því Króatar sem mæta annaðhvort Brasilíu eða Suður-Kóreu í átta liða úrslitum þann 9. desember í Al Rayyan en Japan er úr leik.

Shogo Taniguchi fékk fyrsta færi leiksins en skalli hans úr miðjum teignum, eftir fyrirgjöf frá hægri, fór rétt fram hjá markinu strax á 3. mínútu.

Ivan Perisic fékk sannkallað dauðafæri á 8. mínútu eftir vandræðagang í vörn japanska liðsins. Perisic slapp þá óvænt einn í gegn en Gonda í marki Japans varði mjög vel frá honum úr heldur þröngu færi.

Á 13. mínútu átti Junya Ito frábæra fyrirgjöf frá hægri en Daizen Maeda rétt missti af boltanum sem endaði fyrir aftan endamörk.

Marko Livaja í baráttunni við Kaoru Mitoma.
Marko Livaja í baráttunni við Kaoru Mitoma. AFP/Ozan Kose

Á 28. mínútu átti Borna Barisic fyrirgjöf frá vinstri sem Ivan Perisic skallaði á fjærstöngina. Þar var Andrej Kramaric mættur en hann rétt missti af boltanum og sóknin rann því út í sandinn.

Daichi Kamada fékk frábært færi eftir vel útfærða skyndisókn Japana á 41. mínútu. Boltinn barst til Kamada sem snéri á varnarmenn Króata í teignum en skot hans var afleitt og boltinn fór himinhátt yfir markið.

Það var svo Daizen Maeda sem braut ísinn fyrir Japani á 43. mínútu eftir hornspyrnu frá hægri. Ritsu Doan átti þá fyrirgjöf frá hægri og Króötum mistókst að koma boltanum frá. Boltinn barst til Maeda sem þrumaði honum í netið af stuttu færi og Japanir leiddu því með einu marki gegn engu í hálfleik.

Ivan Perisic og Wataru Endo fara yfir málin.
Ivan Perisic og Wataru Endo fara yfir málin. AFP/Andrej Isakovic

Króatar vildu fá vítaspyrnu strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Bruno Petkovic fór niður í vítateig japanska liðsins eftir samstuð við Shogo Tangiguchi en dómari leiksins Ismail Elfath lét leikinn halda áfram.

Það var svo Ivan Perisic sem jafnaði metin fyrir króatíska liðið í 1:1 á 56. mínútu með frábærum skalla. Dejan Lovren átti þá frábæra sendingu fyrir marki japanska liðsins og Perisic stangaði boltann úr miðjum teignum í markið.

Japanir létu ekki slá sig út af laginu og tveimur mínútum síðar átti Wataru Endo hörkuskot af 30 metra færi sem Dominik Livakovic í marki Króata þurfti að hafa sig allan við til að verja.

Ivan Perisic fagnar jöfnunarmarki sínu.
Ivan Perisic fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Luka Modric átti hörkuskot á 63. mínútu, rétt utan teigs, en Gonda í marki japanska liðsins varði frábærlega í horn.

Ante Budimir fékk sannkallað dauðafæri til að koma Króötum yfir á 66. mínútu þegar boltinn barst til hans í vítateig Japana eftir fyrirgjöf frá hægri en frír skalli hans fór rétt fram hjá marki japanska liðsins.

Ivan Perisic átti fast skot að marki Japana á 78. mínútu en skot hans fór af varnarmanni Japana og rétt fram hjá markinu.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma og því var gripið til framlengingar, þeirrar fyrstu á mótinu til þessa.

Daizen Maeda og Wataru Endo fagna marki þess fyrrnefnda.
Daizen Maeda og Wataru Endo fagna marki þess fyrrnefnda. AFP/Andrej Isakovic

Shogo Taniguchi átti fyrstu marktilraun framlengingarinnar en skalli hans eftir hornspyrnu frá hægri fór fram hjá markinu.

Á 105. mínútu átti Kaoru Mitoma frábæran sprett upp völlinn og hann átti svo hörkuskot sem Dominik Livakovic tókst að verja.

Hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri í síðari hálfleik framlengingarinnar og því var gripið til vítaspyrnukeppni.

Takumi Minamino steig fyrstur á punktinn hjá japanska liðinu en Dominik Livakovic varði slaka spyrnu hans. Nikola Vlasic skoraði svo úr fyrsta víti Króata og kom þeim 1:0 yfir. Livakovic varði svo aðra spyrnu Kaoru Mitoma áður en Marcelo Brozovic kom Króötum 2:0 yfir. 

Takuma Asano minnkaði muninn fyrir Japani með þriðju spyrnu Japana en Marko Livaja skaut svo í stöng úr þriðju spyrnu Króata og staðan var því áfram 2:1. Livakovic varði svo þriðju spyrnu Japana frá Maya Yoshida áður en Mario Pasalic skoraði úr fjórðu spyrnu Króata og tryggði þeim 3:1-sigur.

Ritsu Doan í baráttunni við Mateo Kovacic.
Ritsu Doan í baráttunni við Mateo Kovacic. AFP/Ina Fassbender

Lið Japan:
Mark: Shuichi Gonda.
Vörn: Takehiro Tomiyasu, Maya Yoshida, Shogo Taniguchi.
Miðja: Junya Ito, Wataru Endo, Hidemasa Morita, Yuto Nagatomo (Takuma Asano 65.).
Sókn: Ritsu Doan (Takumi Minamino 87.), Daizen Maeda (Kaoru Mitoma 65.), Daichi Kamada (Hiroki Sakai 75.).

Lið Króatíu:
Mark: Dominik Livakovic.
Vörn: Josip Juranovic, Dejan Lovren, Josko Gvardiol, Borna Barisic.
Miðja: Luka Modric (Lovro Majer 99.), Marcelo Brozovic, Mateo Kovacic (Nikola Vlasic 98.).
Sókn: Andrej Kramaric (Mario Pasalic 68.), Bruno Petkovic (Ante Budimir 62.), Ivan Perisic.

Maya Yoshida og Mateo Kovacic takast á.
Maya Yoshida og Mateo Kovacic takast á. AFP/Jewel Samad
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert