Þjóðverjar leika um 7. sætið á HM

Króatar höfðu betur á móti Þjóðverjum, 28:23, í fyrsta leiknum um sæti 5-8 á HM í Katar í dag og með sigrinum tryggðu Króatarnir sér farseðilinn í undankeppni Ólympíuleikanna.

Þjóðverjarnir þurfa að vinna leikinn um 7. sætið til að fara í þá keppni en þeir mæta tapliðinu í viðureign Dana og Slóvena um það sæti.

Eftir ágæta byrjun Þjóðverjanna náðu Króatarnir undirtökunum um miðjan fyrri hálfleik og héldu þeim sem eftir var leiksins. Lærisveinar Dags Sigurðssonar virkuðu hálf lúnir og áttu ekki möguleika á að skáka Króötunum.

Manuel Strlek skoraði 8 mörk fyrir Króata og Ivan Cupic 5 og þá varði markvörðurinn Mirko Alilovic 16 skot, mörk úr góðum færum. Hjá Þjóðverjum var Uwe Gensheimer atkvæðamestur með 6 mörk en besti maður þeirra var markvörðurinn Silvio Heinevetter sem varði 20 skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert