Guðjón fikrar sig upp á markalistanum

Guðjón Valur fagnar einu af átta mörkum sínum í kvöld.
Guðjón Valur fagnar einu af átta mörkum sínum í kvöld. AFP

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðins í handknattleik, fikrar sig hægt og bítandi upp á markalistanum á heimsmeistaramótinu í handknattleik.

Guðjón Valur lék aðeins fyrri hálfleikinn á móti Angólamönnum í kvöld en náði engu að síður að skora átta mörk og er þar með kominn í 7. sætið yfir markahæstu leikmenn á mótinu með 21 mark.

Guðjón Valur er eini Íslendingurinn sem hefur orðið markakóngur á HM en það var á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi árið 2007. Þar skoraði Guðjón 66 mörk í 10 leikjum Íslands, tíu mörkum fleira en næsti maður, Tékkinn Filip Jicha. Guðjón Valur lék í kvöld sinn 334. landsleik og í þeim hefur hann skorað 1.748 mörk, eða 5,23 mörk að meðaltali.

Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov er markahæstur á HM í Frakklandi með 31 mark, Angólamaðurinn Sergio Lopez kemur næstur með 26 og í þriðja sæti er Túnisinn Amine Bannour sem hefur skoraði 24 mörk.

Rúnar Kárason er annar markahæsti leikmaður Íslands á HM með 15 mörk og Bjarki Már Elísson er með 13 en hann hefur aðeins spilað tvo leiki af fjórum en í kvöld spilaði hann bara seinni hálfleikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert