„Búin að vera saga þessa móts“

Arnór Atlason.
Arnór Atlason. AFP

„Ég er svekktur eins og eftir flest alla leikina. Þetta er búin að vera saga þessa móts ef svo má segja. Við vorum komnir með leikinn algjörlega í okkar hendur en köstuðum sigrinum frá okkur,“ sagði Arnór Atlason við mbl.is eftir spennuleikinn við Makedóníu á HM í kvöld þar sem jafntefli varð niðurstaðan.

„Það var allt með okkur framan af seinni hálfleik en þá gerðum við okkur seka um mörg klaufaleg mistök. Í stað þess að þeir færu að spennast upp gerðum við það. Við lentum í undirtölu og þeir gengu á lagið,“ sagði Arnór.

„En í öllu svekkelsinu megum við ekki gleyma því að við erum komnir í 16 liða úrslitin. Mótherjinn þar verður sterkari en við hefðum fengið með sigri. Það verður bara upplifun að mæta Frökkunum í þessu flotta umhverfi sem verður í Lille. Við höfum engu að tapa.

Frakkar hafa verið stórveldi í handboltanum undanfarin ár og það verður á brattann að sækja. Við komum okkur í þessa stöðu að mæta Frökkum. Það er bara okkur að kenna. Makedóníumennirnir voru bara sáttir við jafntefli og sem betur fer keyrðu þeir ekki á okkur í lokin því þeir höfðu alveg tíma til að skora sigurmarkið. Það hefði samt verið ósanngjarnt af þeim,“ sagði Arnór Atlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert