„Þetta var helvíti sárt“

Kári Kristján Kristánsson í leiknum gegn Makedóníu.
Kári Kristján Kristánsson í leiknum gegn Makedóníu. AFP

„Þetta var helvíti sárt,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson við mbl.is skömmu eftir jafnteflið gegn Makedóníumönnum á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Metz í Frakklandi í kvöld.

„Við vorum komnir fimm mörkum yfir þegar talsvert langt var liðið á seinni hálfleikinn og það er agalegt að klúðra þessum leik niður í jafntefli. Kannski fórum við ómetvitað að hugsa um að halda fengnum hlut og í leiðinni slökuðum við allt of mikið á. Við nýttum ekki hlutina sem við höfðum gert og hleyptum þeim að óþörfu inn í leikinn,“ sagði Kári, en þessi niðurstaða þýðir að Íslendingar mæta Frökkum í 16 liða úrslitunum í Lille á laugardaginn.

„Það verður bara gaman að mæta Frökkunum. Það er helvíti fúlt að hugsa til þess að með sigri hefðum við mætt Norðmönnunum en við verðum bara að kyngja þessu. Í 16 liða úrslitum er miði alltaf möguleiki. Mér finnst vörnin heilt yfir búin að vera frábær hjá okkur og í þessum leik fannst mér við verjast því vel lengi framan af leik að spila sex á móti þeim sjö. Kannski misstum við smá orku í seinni hálfleik og þetta fór á þennan hátt,“ sagði Kári Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert