„Vonandi vanmeta þeir okkur“

Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson. AFP

„Það var ógeðslega leiðinlegt að vinna ekki þennan leik en við fórum illa að ráða okkar á síðasta korterinu. Ég fékk heimskulega brottvísun og tók slæmt skot yfir völlinn og það var dýrt,“ sagði Bjarki Már Elísson við mbl.is eftir jafntefli Íslendinga og Makedóníumanna á HM í handknattleik í Metz í kvöld.

Bjarki Már tók við hlutverki Guðjóns Vals og lék allan seinni hálfleikinn. Bjarki hélt áfram að „brillera“ og skoraði sex mörk í leiknum.

„Við fórum að vera of „passívir“ á lokakaflanum og hættum að keyra á þá eins við höfðum gert allan leikinn og að reyna að verja forskotið. Sem betur fer náðum við þó alla vega jafntefli því ég hefði aldrei nennt að fara í þennan forsetabikar.

Það var mjög svekkjandi að vinna ekki leikinn og fá þannig leik við Norðmenn sem við vinnum alltaf. Við vorum okkur sjálfir verstir og gerðum okkur seka um heimskuleg mistök. Við svekkjum okkur í kvöld og það kemur tilhlökkun á morgun þegar við förum að skoða Frakkana. Þeir eru frábærir og ætla sér að vinna þetta mót. Vonandi vanmeta þeir bara okkur og við munum reyna að stríða þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert