Danir sýndu Patreki enga miskunn

Mikkel Hansen með boltann fyrir Dani í kvöld en Austurríkismaðurinn …
Mikkel Hansen með boltann fyrir Dani í kvöld en Austurríkismaðurinn Janko Bozovic er til varnar. AFP

Danmörk er örugg með sæti í milliriðlum heimsmeistaramótsins í handknattleik eftir ellefu marka sigur á Patreki Jóhannessyni og lærisveinum hans í austurríska landsliðinu, 28:17, í næstsíðustu umferð C-riðils í Herning í kvöld.

Austurríkismenn byrjuðu leikinn hins vegar af miklum krafti og voru fljótir að taka forystu. Þeir náðu fjögurra marka forskoti, 7:3, og virtust koma Dönum svolítið í opna skjöldu. Vendipunktur leiksins var hins vegar í lok fyrri hálfleiks þegar Austurríki var yfir 8:5. Danir skoruðu þá síðustu sex mörk fyrri hálfleiks, sneru taflinu við á örskotsstundu og voru yfir í hálfleik 11:8.

Danir skoruðu jafnframt fyrstu tvö mörk síðari hálfleiks og höfðu þá skorað alls átta mörk í röð í leiknum. Þetta reyndist kafli sem Austurríki náði aldrei að svara og skoruðu lærisveinar Patreks aðeins níu mörk eftir hlé. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Dani sem unnu stórsigur 28:17.

Magnus Landin og Rasmus Lauge skoruðu báðir sex mörk fyrir Dani en þrír voru markahæstir hjá Austurríki með þrjú mörk. Það voru þeir Janko Bozovic, Daniel Dicker og Robert Weber.

Danir og Norðmenn eru hvorir tveggja með fullt hús stiga í C-riðlinum og eru bæði með markatölu sem er +60 mörk. Þau mætast á fimmtudag í úrslitaleik um toppsætið og stig til þess að taka með sér í milliriðilinn.

Ekki er öll von úti hjá Patreki þrátt fyrir að hafa aðeins unnið einn leik af fjórum í riðlinum. Liðið mætir Túnis í lokaumferðinni á fimmtudag og með sigri gæti Austurríki komist áfram vegna betri innbyrðis viðureigna. En fari það svo að Síle vinni stigalaust lið Sádi-Arabíu verður það hins vegar Síle sem fer áfram þótt Austurríki vinni vegna sigurs í viðureign þeirra.

Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni gegn Dönum í kvöld.
Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni gegn Dönum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert