Björgvin Páll í sérflokki á HM

Björgvin Páll Gústavsson fagnar í leiknum við Barein.
Björgvin Páll Gústavsson fagnar í leiknum við Barein. AFP

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, er í sérflokki á heimsmeistaramótinu sem nú stendur yfir þegar horft er á varin vítaskot í keppninni til þessa.

Björgvin Páll hefur alls varið sex vítaskot í fjórum fyrstu leikjunum og hefur enginn varið fleiri. Sá sem kemst næst honum er Oleg Grams hjá Rússum með fimm varin vítaskot. Ef horft er til liðanna í heild þá er Ísland búið að verja sjö vítaskot, því Ágúst Elí Björgvinsson varði eitt gegn Barein. Rússar og Argentínumenn koma næstir með fimm varin vítaskot samtals.

Ef horft er til fleiri tölfræðiþátta þá hafa aðeins tveir markmenn varið fleiri skot en Björgvin Páll. Hann hefur varið 38 af þeim 111 skotum sem hann hefur fengið á sig sem gerir 34% hlutfall, sem er þó næstlakasta hlutfallið af þeim markmönnum sem spilað hafa flestar mínútur hjá sínum liðum. Að sama skapi hefur aðeins einn markvörður fengið fleiri skot á sig en þessi 111 sem Björgvin hefur þurft að takast á við.

Ef horft er til markaskorara er Arnór Þór Gunnarsson jafn fleiri leikmönnum í 9.-14. sæti yfir markahæstu menn mótsins. Hann hefur skorað 21 mark í fjórum leikjum, og aðeins þurft 24 skot til þess. Markahæstir eru Rússinn Timur Dibirov og Þjóðverjinn Uwe Gensheimer með 29 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert