Tveir sigrar og eitt tap á HM á móti Japan

Björgvin Páll Gústavsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn …
Björgvin Páll Gústavsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Japan í dag. AFP

Íslendingar og Japanir hafa þrisvar leitt saman hesta sína á heimsmeistaramóti, fyrsta viðureignin var á HM í Frakklandi árið 1970 og sú þriðja á HM í Svíþjóð 41 ári síðar. 

Japanir unnu leikinn á HM 1970, 20:19, en leikið var í París 3. mars. Einar heitinn Magnússon, stórskytta úr Víkingi, sem síðar lék einnig í Þýskalandi um skeið, var markahæstur í íslenska liðinu í þeim leik með fimm mörk. Ingólfur Óskarsson, Framari, var næstur með fjögur mörk. Japanir reyndust Íslendingum erfiðir á þessum árum og þegar þjóðirnar mættust á Ólympíuleikunum í München, á sama stað og leikið verður á í dag, tveimur árum síðar í leik um 11. sætið vann japanska liðið aftur með eins marks mun, 19:18.

Önnur viðureignin fór fram í Kumamoto í Japan 17. maí árið 1997 og það var fyrsti leikur Íslands í þeirri keppni. Ísland sigraði 24:20. Patrekur Jóhannesson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk og Valdimar Grímsson skoraði sjö. Íslenska liðið náði á þessu móti sínum besta árangri á HM í sögunni þegar það endaði í 5. sæti.

Þriðju viðureign Íslands og Japans á HM unnu Íslendingar örugglega í Linköping 17. janúar 2011, 36:22. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu í þeirri viðureign með níu mörk. Þórir Ólafsson kom næstur með sjö mörk. Dagur Sigurðsson, sem nú þjálfar Japan, var með í þessum leik og gerði eitt mark.

Tveir leikmenn íslenska landsliðsins í dag tóku þátt í leiknum í Linköping fyrir átta árum, Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson. Guðmundur Þórður Guðmundsson var þjálfari íslenska liðsins þá eins og nú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert