Hrósar liðinu fyrir að halda haus

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari veltir vöngum í leiknum við Japan …
Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari veltir vöngum í leiknum við Japan á HM í dag. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, var fyrst og síðast ánægður með varnarleik íslenska landsliðsins í leiknum við Japan í dag. Honum þótti sóknarleikurinn að sama skapi ekki vera sannfærandi á köflum og sagði í samtali við mbl.is að leikmenn hafi gert of mikið af því að fara út úr skipulaginu og stytta sóknirnar. Menn hafi fallið í þá gryfju í öðrum leikjum keppninnar. Á þessu verði að vinna bug fyrir næstu leiki íslenska liðsins á HM í Þýskalandi.

„Á móti svona snöggum mönnum þá stóðum við vörnina mjög vel. Sóknarleikurinn var ágætur á upphafsmínútunum og gekk eins og lagt var upp með. Þegar á leið þá fóru menn að stytta sóknirnar enn og aftur. Þetta gerðist einnig á móti Króötum og Spánverjum. Þar á ofan þá hittu menn ekki markið þegar þeir komust í skotfæri bara í fyrri hálfleik auk þess að gera sex tæknifeila. Menn fóru bara út úr systeminu. Þetta verðum við að fara yfir og ljóst að okkur vantaði aga,“ sagði Guðmundur Þórður og bætti við:

„Í síðari hálfleik sóttum við allt of oft ofan í vörnina. Flæðið á boltanum varð lítið og því miður þá var þetta ekki okkar dagur í sókninni. Þetta var erfitt en ég vil þó hrósa liðinu fyrir að halda haus og vinna leikinn þótt sigurinn hafi verið torsóttur. Svo sannarlega ekki einfaldur leikur,“ sagði Guðmundur Þórður sem hóf undirbúning fyrir viðureignina við Makedóníu á morgun strax og leiknum við Japan lauk í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert