Íslandi nægir jafntefli eftir stórsigur Spánar

Stojanche Stoilov reynir að stöðva Spánverjann Raul Entrerrios í leiknum …
Stojanche Stoilov reynir að stöðva Spánverjann Raul Entrerrios í leiknum í kvöld. AFP

Ísland mun mæta Makedóníu í hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik, en þetta var endanlega staðfest í kvöld þegar Spánn vann Makedóníu í B-riðli mótsins, 32:21. Íslandi dugir jafntefli til þess að komast áfram.

Leikurinn var æsispennandi í fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að hafa forystu. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 13:12 fyrir Spánverja, en vendipunktur leiksins kom strax í upphafi þess síðari. Spánn skoraði þá sjö mörk gegn einu og breytti stöðunni í 20:13. Makedónía komst aldrei í gang eftir þetta og Spánverjar unnu 32:21.

Aleix Gomez var markahæstur hjá Spánverjum með sex mörk, og er liðið öruggt með sæti í milliriðli eins og Króatía. Hjá Makedóníu skoraði Zharko Peshevski sex mörk.

Spánn og Króatía eru með 8 stig, Ísland og Makedónía eru með 4 stig en Japan og Barein eru án stiga. Úrslitaleikur Íslands og Makedóníu um þriðja sæti riðilsins og sæti í milliriðli fer fram klukkan 17 á morgun. Þar sem Ísland er með betri markatölu en Makedónía mun jafntefli duga til þess að ná þriðja sætinu.

Svíar sluppu með skrekkinn

Svíþjóð, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, lenti í basli með Katar og slapp með skrekkinn í eins marks sigri, 23:22. Eftir jafnan fyrri hálfleik var Katar marki yfir í leikhléi, 11:10, og það var ekki fyrr en í stöðunni 18:17 sem Svíar komust yfir eftir hlé. Þeir náðu að hanga á þeirri forystu og unnu nauman sigur 23:22, eftir að Katar skoraði þrjú síðustu mörk leiksins.

Mattias Zachrisson skoraði sjö mörk fyrir Svía, sem hafa unnið alla leiki sína í D-riðlinum í Kaupmannahöfn og mæta Ungverjalandi í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins á morgun.

Svíar eru með 8 stig, Ungverjar 6, Egyptar 3, Argentínumenn 3, Angóla 2 og Katar 2 stig. Fjögur neðri liðin, Katar, Egyptaland, Angóla og Argentína, eiga öll möguleika á á þriðja og síðasta sætinu í milliriðla. Þau mætast innbyrðis á morgun.

Kristján Andrésson á hliðarlínunni hjá Svíum í kvöld.
Kristján Andrésson á hliðarlínunni hjá Svíum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert