Var ströggl hjá okkur

Elvar Örn Jónsson t.h. reynir að stöðva Yuto Agarie, leikmann …
Elvar Örn Jónsson t.h. reynir að stöðva Yuto Agarie, leikmann japanska landsliðsins, í leiknum í dag. AFP

„Þetta var ströggl hjá okkur. Japanarnir er mjög fljótir og erfiðir viðureignar,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður  í handknattleik, eftir fjögurra marka sigur íslenska landsliðsins á því japanska, 25:21, í fjórðu umferð B-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München í dag.

Sigurinn var torsóttur en að honum loknum stendur íslenska landsliðið frammi fyrir úrslitaleik við Makedóníu um sæti í milliriðlakeppni mótsins síðdegis á morgun.

„Japanar hafa bætt sig mikið á síðustu mánuðum og við vissum fyrir fram að leikurinn yrði okkur erfiður,“ sagði Elvar Örn.

Sóknarleikurinn var á köflum erfiður hjá íslenska landsliðinu en varnarleikurinn var hins vegar til fyrirmyndar.  „Við skutum illa á markið, hittum það oft og tíðum ekki í fyrri hálfleik. Kannski voru árásirnar  ekki nógu góðar. Þessi atriði bötnuðu aðeins í síðari hálfleik,“ sagði Elvar Örn sem vildi ekki viðurkenna að stress hafi verið komið í hópinn þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson tók leikhlé sex mínútum fyrir leikslok þegar íslenska liðið var aðeins marki yfir, 21:20.

Nei, alls ekki. Við höfðum alltaf trú á að við myndum vinna leikinn en það gæti tekið talsvert á okkur,“ sagði Elvar Örn sem var byrjaður að velta framhaldinu fyrir sér strax að leik loknum í kvöld. Fram undan er úrslitaleikur við landslið Makedóníu á morgun, mjög ólíkan andstæðingi íslenska landsliðsins í dag.

„Makedóníumenn er stærri og þyngri en Japanar og leika alþjóðlegri handknattleik sem við eru  vanari. Makedónía er með hörkulið og ljóst að tvö góð lið mætast á vellinum sem bæði vilja ná langt. Ég hef fulla trú á að við getum og munum vinna leikinn á morgun. Við ætlum okkur í milliriðil,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik karla, í samtali við mbl.is í Ólympíuhöllinni í München í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert