Arnór Þór leikur sinn 100. landsleik

Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. AFP

Það er tímamótaleikur hjá hornamanninum Arnóri Þór Gunnarssyni þegar Ísland mætir Makedóníu í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handbolta í dag.

Arnór Þór leikur sinn 100. landsleik í dag en þessi 31 árs gamli hornamaður úr þýska liðinu Bergischer er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á HM. Hann hefur skorað 21 mark og er í 9.-14. sæti yfir markahæstu leikmenn mótsins.

Arnór hefur skorað 270 mörk fyrir íslenska landsliðið í leikjunum 99. Hann skoraði fimm mörk í sigurleiknum á móti Japan og í leikslok valinn maður leiksins.

Aðeins þrír leikmenn landsliðsins í dag hafa oftar klæðst landsliðspeysunni en Arnór Þór. Björgvin Páll Gústafsson á 216 landsleiki að baki, Aron Pálmarsson 133, og Ólafur Andrés Guðmundsson 105.

Ómar Ingi Magnússon leikur sinn fertugasta A-landsleik í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert