Hansen skoraði 14 gegn Norðmönnum

Mikkel Hansen var óstöðvandi í kvöld og brýst hér einu …
Mikkel Hansen var óstöðvandi í kvöld og brýst hér einu sinni sem oftar í gegnum vörn Norðmanna. AFP

Hann virtist ekki ætla að verða spennandi, grannaslagur Dana og Norðmanna í úrslitaleik um efsta sæti C-riðils á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Herning í kvöld. Allt stefndi í öruggan sigur Dana, en áhlaup Norðmanna í lokin hleypti spennu í leikinn. Danir unnu þó að lokum 30:26 og unnu alla sína leiki í riðlinum.

Aðeins var tvívegis jafnt í leiknum, það var í stöðunum 0:0 og 1:1, en annars voru Danir alltaf yfir. Þeir náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, 16:11, en voru þremur mörkum yfir í hálfleik 17:14. Eftir hlé komust Danir meðal annars í 25:16, áður en Norðmenn náðu góðu áhlaupi.

Þeir skoruðu sjö mörk gegn einu og breyttu stöðunni úr 25:16 í 26:23. Nær komust Norðmenn þó ekki og Danir unnu 30:26. Mikkel Hansen var gjörsamlega óstöðvandi hjá Dönum og skoraði 14 mörk. Goran Johannessen skoraði fimm fyrir Norðmenn.

Danir unnu þar með C-riðilinn með fullu húsi stiga og taka fjögur stig með sér í milliriðil en Norðmenn tvö, þar sem þetta var fyrsta og eina tap þeirra í riðlinum. Ásamt þeim fer Túnis áfram úr C-riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert