Hver er staða íslensku þjálfaranna á HM?

Kristján Andrésson, þjálfari sænska landsliðsins.
Kristján Andrésson, þjálfari sænska landsliðsins. AFP

Fimm Íslendingar stýra liðum á heimsmeistaramótinu í handknattleik og fyrir lokaumferð riðlakeppninnar í dag er aðeins einn þeirra öruggur áfram með lið sitt í milliriðil.

Kristján Andrésson og lærisveinar hans í liði Svía eru öruggir með sæti í milliriðilinn en þeir mæta Ungverjum í hreinum úrslitaleik um efsta sætið í B-riðlinum þar sem Svíum dugar jafntefli til að vinna riðilinn.

Guðmundur Þórður Guðmundsson og strákarnir hans í íslenska landsliðinu tryggja sér sæti í milliriðli með því að vinna eða gera jafntefli við Makedóníu.

Patrekur Jóhannesson og hans menn í austurríska landsliðinu halda í vonina um að komast í milliriðil. Austurríki fer áfram ef liðið vinnur Túnis í dag og Síle vinnur ekki Sádi-Arabíu. Vinni Síle sinn leik þarf Austurríki að vinna Túnis með 11 marka mun til að komast áfram.

Dagur Sigurðsson og strákarnir hans í Japan eiga ekki möguleika á að komast áfram og sömu sögu er að segja um Barein sem Aron Kristjánsson þjálfar. Þeir leiða saman hesta sína í dag. Tapliðið endar í neðsta sæti í B-riðlinum en Japönum dugar jafntefli til að ná fimmta sætinu. Liðið sem endar í fimmta sæti leikur um sæti 17-20 en liðið í sjötta sætinu spilar um sæti 21-24.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert