„Íslenska hjartað vann leikinn“

Arnór Þór Gunnarsson t.h. fagnar einu af tíu mörkum sínum …
Arnór Þór Gunnarsson t.h. fagnar einu af tíu mörkum sínum gegn Makedóníu á HM í kvöld. AFP

„Sigurinn var sætur og við erum stoltir vegna þess að allir lögðu sig fullkomlega fram í leiknum,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson sem skoraði 10 mörk í sínum 100. landsleik þegar Ísland vann Makedóníu í kvöld, 24:22, á HM í handknattleik í München i gærkvöld.

„Íslenska hjartað vann leikinn. Við vissum fyrir fram að til þess að vinna þyrftum við að leggja líkama og sál í leikinn. Sú varð raunin þegar á hólminn var komið. Við vissum að þeir myndu brotna þegar á leikinn liði, þeir hefðu ekki þrek í leikinn. Það kom einnig á daginn, en vissulega var leikurinn ekki auðveldur. Það verður frábært að leika í milliriðlakeppninni í Lanxess-Arena í Köln,“ sagði Arnór Þór sem var eins og aðrir leikmenn íslenska liðsins í sjöunda himni í leikslok.

Arnór Þór skoraði mörk í flestum regnbogans litum í kvöld. „Þetta er gaman. Fyrir það er maður í þessu. Enn betra var að komast í milliriðlakeppnina með sigri í sínum eitthundraðasta landsleik,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson sem nú hefur skorað 280 mörk fyrir landsliðið í 100 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert