Stór áfangi fyrir handbolta í Barein

Ali Abdulqader fagnar sigri Bahrein á Japan á HM í …
Ali Abdulqader fagnar sigri Bahrein á Japan á HM í dag. AFP

„Svona er handboltinn, stundum er stöngin inn og stundum stöngin út,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein, við mbl.is, eftir sigur á landsliði Japans, 23:22, eftir æsispennandi lokakafla þar sem Bareinbúar skoruðu þrjú síðustu mörkin og tryggðu sér þar með fimmta sætið í B-riðli heimsmeistaramótsins og keppnisrétt um sæti 17 til 20 á HM.

„Það er stór áfangi fyrir handboltann í Barein að vinna leik hér og leika um sæti sautján til tuttugu,“ sagði Aron en tryggir að Barein nær nú betri árangri en nokkru sinni áður á heimsmeistaramótinu.

Um skeið í síðari hálfleik blés ekki byrlega fyrir hans mönnum sem lentu fimm mörkum undir rétt fyrir miðjan síðari hálfleik, 19:14.

„Þetta var hörkuleikur þar sem við vorum með frumkvæðið í fyrri hálfleik. Mínir menn klikkuðu svolítið á góðum færum sem varð þess valdandi að við náðum aldrei almennilegu forskoti þótt við værum með frumkvæðið. Ég hefði vilja fara með þriggja til fjögurra marka forskot inn í hálfleikinn í stað jafnrar stöðu,“ sagði Aron enn fremur. 

„Síðari hálfleik byrjum við illa. Þá var ég hræddur um að menn væru hreinlega búnir því þeir litu ekki vel út. Mér tókst að róa menn niður og segja þeim að nú væri bara um eina sókn og eina vörn að ræða í einu. Hægt og rólega náðum við að minnka muninn. Um leið og strákarnir náðu að saxa á forystu japanska liðsins hvarf þreytan. Hægt og rólega unnum við okkur til baka auk þess sem markvarslan var fín. Það var seigla í sókninni. Mínir menn sýndu mikinn karakter að klára leikinn með sigri,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein, glaður í bragði þegar mbl.is hitti hann að máli eftir sigurinn á Japan rétt áðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert