Takmarkinu var náð

Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. AFP

„Okkur tókst að keyra á þá seinnibylgjusóknir fyrstu tíu mínúturnar en eftir að þeir fóru að svara með marki í hverri sókn datt botninn úr hjá okkur. Við vorum í hörkuleik frá upphafi og ég er fyrst og fremst sáttur við að vinna leikinn. Sigurinn færir okkur úrslitaleikinn við Makedóníu sem við höfum litið til,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á HM í handbolta eftir sigurinn á Japan í gær, 25:21, í Ólympíuhöllinni í München.

Sigurinn var torsóttur. Arnór Þór viðurkenndi það og bætti við að japanska liðið hefði tekið framförum á síðustu mánuðum og væri orðið mjög erfitt viðureignar. „Japanir eru með hörkulið. Við vissum það vel, eftir að hafa horft á upptöku af öllum leik Japans og Spánar, að við myndum ekki labba í gegnum þá. Það var alveg ljóst að þeir myndu keyra á okkur maður á mann. Japanir eru fljótir og erfiðir viðureignar enda í hörkuformi,“ sagði Arnór Þór ennfremur við Morgunblaðið.

„Ég er í heild ánægður með leikinn þótt við veldum oft ranga kosti í markskotum. Stundum misstum við boltann á óþarfan hátt. Sigurinn er hins vegar aðalmálið þegar upp er staðið,“ sagði Arnór Þór sem var þegar í gærkvöldi farinn að búa sig undir úrslitaleikinn við landslið Makedóníu sem hefst klukkan 17 í dag í Ólympíuhöllinni í München. Sigurliðið kemst í milliriðlakeppnina en það hefur verið markmið íslenska landsliðsins.

„Eftir tapið fyrir Spáni varð ljóst að fram undan væru þrír úrslitaleikir hjá okkur. Tveir eru að baki og þá höfum við báða unnið, gegn Barein og Japan. Síðasti úrslitaleikurinn er eftir, við Makedóníu, og þann leik ætlum við einnig að vinna.

Makedóníumenn eru allt öðruvísi andstæðingur en Japanir. Lið Makedóníu leikur nær eingöngu með sjö menn í sókn. Innan liðsins er hinn frábæri Kiril Lazarov og línumaðurinn Stojanche Stoilov auk markvarðarins Borkos Ristovskis og Dejans Manaskovs í öðru horninu. Hér er á ferðinni frábært lið og ljóst að við verðum að eiga framúrskarandi leik til þess að vinna þá. Við verðum að vera ferskir,“ sagði Arnór Þór og bætti við: „Ég hef fulla trú á að við verðum tilbúnir í slaginn þótt lítill tími gefist til undirbúnings.“

Sjá allt um HM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert