Drengir verða að mönnum

Arnór Þór Gunnarsson og Björgvin Páll Gústavsson fagna en þeir …
Arnór Þór Gunnarsson og Björgvin Páll Gústavsson fagna en þeir voru bestu menn Íslands í gær. AFP

Stundum ganga draumarnir eftir, stundum ekki, eins og sannast hefur hjá íslenska landsliðinu í handknattleik karla á heimsmeistaramótinu að þessu sinni.

Í gær rættist draumurinn um sæti í milliriðlakeppni mótsins, Ísland er á meðal 12 bestu liða mótsins. Íslenska landsliðið er aftur komið í hóp þeirra bestu, eftir að hafa slegið út landslið Makedóníu í úrslitaleik um sæti í margumræddri milliriðlakeppni, eftir framúrskarandi leik og tveggja marka sigur, 24:22, í Ólympíuhöllinni í München eftir að hafa verið undir í hálfleik, 13:11.

Á þessum vettvangi í blaðinu í gær sagði ég að leikurinn við Makedóníu væri prófraun fyrir hið unga og efnilega landslið Íslands sem er í örum vexti. Leikurinn myndi skera úr um hvort þessi hópur ungra handknattleiksmanna væri kominn á þann stað á þroskabrautinni að hann gæti stigið skrefið gegn þrautreyndu landsliði Makedóníu. Kannski ekki skemmtilegasta handboltaliði heims en vafalaust einu erfiðasta. Liði sem hefur gert leiðinlegan handknattleik að listgrein og náð árangri. Skemmst er frá því að segja að íslenska landsliðið stóðst prófið. Fimmtudaginn 17. janúar 2019 urðu drengirnir að mönnum.

Þeir stóðust prófið og brutu um leið ísinn. Óttalausir gengu þeir í mót Makedóníumönnum og þótt rimman væri erfið og lengi hafi róðurinn verið þungur þá héldu þeir áfram þar til marki var náð. Eftir stóðu þrekaðir Makedóníumenn og urðu að játa sig sigraða. Þeir vissu þegar upp var staðið að þeir töpuðu verðskuldað fyrir liði sem var einfaldlega betur þjálfað og skipulagt.

Sjá allt um HM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert