Enginn vill leika fyrir tómri höll

Ólafur Gústafsson tekur hressilega á móti spænskum sóknarmanni í kappleik …
Ólafur Gústafsson tekur hressilega á móti spænskum sóknarmanni í kappleik á HM á dögunum. AFP

Ólafur Gústafsson landsliðsmaður í handknattleik verður væntanlega í hjarta íslensku varnarinnar gegn Þjóðverjum í fyrsta leik liðanna í milliriðlakeppni HM í handbolta í Lanxess-Arena í Köln annað kvöld.  Hann býr sig undir skemmtilegan leik fyrir framan 20 þúsund áhorfendum sem flestir verða á bandi þýska landsliðsins, ef að líkum lætur.

„Þegar menn verða komnir út á völlinn þá hætta þeir að spá í hversu margir áhorfendurnir eru. En hávaðinn verður vissulega mikill. Það er bara skemmtilegt. Enginn vill leika í tómri höll,“ sagði Ólafur og brosti út í annað.

Hann segist reikna með að leikskipulag íslenska landsliðsins verði svipað og í undangengnum leikjum.  „Við höldum okkur við sömu atriði í sókn og vörn í stórum dráttum en ef til vill verða einhverjar áherslubreytingar eins og gengur á milli leikja og andstæðinga.  Við vonandi verðum með eitthvað sem virkar á Þjóðverjana,“ sagði Ólafur þegar mbl.is hitti hann á máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins í keppnishöllinni í Köln í kvöld.

Ólafur segir að þýska liðið vera ólíkt landsliði Makedóníu sem íslenska liðið vann í gær. Þjóðverjar leika hraðari handknattleik og leggi heldur ekki áherslu á að leika með sjö menn í sókn.

Viðureign Íslands og Þýskalands hefst klukkan 19.30 á morgun og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert