Kalla Spánverjar á Sterbik?

Arpad Sterbik og félagar fagna sigrinum á EM í fyrra.
Arpad Sterbik og félagar fagna sigrinum á EM í fyrra. AFP

Svo kann að fara að spænski landsliðsþjálfarinn þurfi að leita á náðir markvarðarins Arpad Sterbik annað stórmótið í röð eftir að Rodrigo Corrales, annar markvörður liðsins, meiddist við lok æfingar spænska landsliðsins í Lanxess-Arena í kvöld. 

Corrales var að gera teygjuæfingar við eitt af eitt af auglýsingaskiltunum við hliðarlínuna þegar skiltið gaf sig og Corrales datt ofan á það. Greinilega hefur skiltið verið illa fest.

Góða stund tók að huga að Corrales sem að lokum haltraði í burtu í fylgd aðstoðarmanna landsliðsins. Hugsanlegt að hann sé úr leik á mótinu. Komi það í ljós þarf Jordi Ribera, landsliðsþjálfari Spánverja, að taka upp símann og hlera hvort Arpad Sterbik er klár í slaginn. Hann er í 28 manna hópi Spánverja og því gjaldgengur á mótið.

Ribera varð að kalla Sterbik til leiks fyrir ári á EM í Króatíu þegar Gonzales Vargas meiddist fyrir leik í undanúrslitum EM. Sterbik varð þá við óskum Ribera og kom, sá og sigraði í tveimur síðustu leikjum EM, átti m.a. stórleik í úrslitaleiknum við Svía sem Spánverjar unnu örugglega.

Spánverjar mæta Frökkum annað kvöld í milliriðlakeppni HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert