Erum hundsvekktir með að tapa

Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir að snúa á Hendrik Pekeler í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir að snúa á Hendrik Pekeler í leiknum í Lanxess-Arena í Köln í kvöld. AFP

„Við brenndum af allt of mörgum dauðafærum sem urðu þess valdandi að við fengum mark á okkur í staðinn. Gegn heimsklassaliði eins og þýska landsliðinu þarf allt að ganga upp til þess að hafa í fullu tré við það,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem var vonsvikinn eftir fimm marka tap, 24:19, fyrir þýska landsliðinu í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Lanxess-Arena í Köln í kvöld.

„Öll smáatriði skipta máli í svona leik. Við getum sjálfum okkur um kennt að vera ekki nógu ákveðnir á móti markinu og markverðinum,“ sagði Gísli og nefndi enn fremur að íslenska liðinu hefði ekki tekist að nýta sér liðsmun í nokkur skipti í leiknum. „Ofan á annað þá meiddist Aron. Það var eins allt legðist á eitt til að gera okkur erfitt fyrir,“ sagði Gísli Þorgeir enn fremur en mikið mæddi á honum í leiknum. Segja má að hann hafi leikið nær allan tímann í sóknarleik Íslands.

„Við áttum möguleika í þýska liðið en því miður þá tókst ekki að nýta þann möguleika í dag. Við erum hundsvekktir með að hafa tapað leiknum. Allt til enda höfðum við trú á verkefninu og gáfumst aldrei upp, börðumst vel. Það var jákvætt og ég er bjartsýnn á framtíðina hjá okkur þótt svona hafi farið að þessu sinni,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson í samtali við mbl.is í Lanxess-Arena í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert