Höfum bullandi trú á að geta unnið

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. AFP

„Við höfum farið vel yfir leiki Þjóðverja og það má sjá að hjá þeim eru veikleikar fyrir hendi en að sama skapi er ljóst að við verðum að eiga toppleik til þess að vinna þá við þessar aðstæður. Við höfum bullandi trú á að við getum unnið,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, spurður út viðureignina við Þýskaland á heimsmeistaramótinu í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og fer fram í Lanxess-Arena í Köln að viðstöddum tæplega 20 þúsund áhorfendum, flestum á bandi þýska liðsins sem ekki hefur tapað leik í keppninni fram til þessa.

Aron sagði þýska liðið vera að mörgu leyti frábrugðið fyrri andstæðingum íslenska landsliðsins fram til þessa á mótinu. „Það er gaman að mæta gestgjöfunum á mótinu fyrir framan þeirra stuðningsmenn og við þessar aðstæður. Við mætum fullir sjálfstrausts í leikinn og ætlum að halda áfram að sýna hvað við getum og berjast við toppliðin,“ sagði Aron enn fremur.

„Ég þekki orðið vel inn á hvað gera skal eftir að hafa gengið í gengum svona nokkuð áður. Ég er orðinn góður en ekkert brjálæðislega ferskur enn þá,“ sagði Aron, spurður hvernig heilsan væri hjá honum en flensa hefur herjað á hann síðustu daga ofan á mikið álag eftir fimm leiki á sjö dögum.

„Þegar flautað verður til leiks þá verð ég klár í slaginn, það er engin spurning,“ sagði Aron Pálmarsson landsliðsfyrirliði sem leikur sinn 135. landsleik í kvöld.

Viðureign Íslands og Þýskalands hefst klukkan 19.30 í dag og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert