Þjóðverjar voru númeri of stórir

Jannik Kohlbacher, Aron Pálmarsson og Hendrik Pekeler í leiknum í …
Jannik Kohlbacher, Aron Pálmarsson og Hendrik Pekeler í leiknum í kvöld. AFP

Íslenska landsliðið réði ekki við þýska landsliðið í fyrsta leik sínum í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í magnaðri stemningu í Lanxess-Arena að viðstöddum nærri 20 þúsund áhorfendum í kvöld, lokatölur 24:19, eftir að staðan var 14:10 í hálfleik. Næsti leikur verður annað kvöld á sama stað gegn heimsmeisturum Frakka.

Þýska liðið var sterkara allan leikinn í kvöld. Varnarleikur liðsins var framúrskarandi og þá varði Andy Wolff markvörður afar vel í síðari hálfleik. Skarð var svo sannarlega fyrir skildi í íslenska liðinu að Aron Pálmarsson meiddist um miðjan fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu.

Martin Strobel skoraði fyrsta mark leiksins eftir 45 sekúndur. Bjarki Már Elísson jafnaði metin hiklaust í fyrstu sókn íslenska liðsins sem gerði tvær skiptingar á milli varnar og sóknar. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku sóknina og skiptu við Ólaf Gústafsson og Elvar Örn Jónsson í vörn.

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn Þjóðverja í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn Þjóðverja í kvöld. AFP

Þýska liðið komst í 3:1 en Arnór Þór Gunnarsson minnkað muninn og hársbreidd vantaði upp á það tækist að jafna metin í 3:3. Sending fram leikvöllinn gekk ekki og Þjóðverjar voru ekki lengi að skora tvö mörk á skömmum tíma, 5:2, eftir sjö mínútur. Íslenska liðið beit frá sé og jafnaði metin, 5:5, eftir 12 mínútur. Þjóðverjar áttu í vandræðum með sóknarleik sinn. Spenna virtist í mönnum þýska liðsins.

Aron Pálmarsson kom Ísalandi yfir í fyrsta sinn, 6:5, eftir hálfa þréttándu mínútu. Þá tók Christian Prokop, landsliðsþjálfari Þjóðverja leikhlé. Sóknarleikur liðs hans var ekki sannfærandi. 

Á þeim tíma höfðu  bæði lið misst tvo leikmenn af leikvelli fyrir leikbrot. Já, þeir voru ákveðnir tékknesku dómararnir, kannski einum of.

Gísli Þorgeir kom Ísland yfir, 7:6. Strobel jafnaði leikinn í næstu sókn. Þá fékk Elvar Örn sína aðra brottvísun eftir 18 mínútur sem var hið versta mál.  Uwe Gensheimer bætti marki við eftir hraðaupphlaup, 8:7. Guðmundur Þórður Guðmundsson tók leikhlé. Sóknarleikurinn hafði reyndar gengið vel að því leyti að menn léku sig í færi en á stundum lánaðist ekki á nýta færin sem skildi.

Patrick Groetzki kom Þjóðverjum tveimur mörkum yfir, 11:9, eftir ríflega 24 mínútur og Gensheimer bætti 12.markinu við í kjölfarið eftir hraðaupphlaup eftir nokkrar misheppnaðar sóknir íslenska liðsins. Bitið fór aðeins úr þegar Aron var hvíldu um nokkurra mínútna skeið.  Þrettánda mark Þjóðverja var skorað áður en Ýmir Örn Gíslason batt enda á markaþurrð íslenska liðsins með góðu marki af línunni, eftir sendingu Elvars Arnar.

Staðan í hálfleik, 14:10. Sóknarleikurinn gekk illa síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks og það var eins leikurinn væri að renna okkur úr greipum. Þýska vörnina var frábær og lokaði algjörlega fyrir íslenska sóknarleikinn þar sem menn komust hvorki lönd né strönd. Þjóðverjar skoruðu fjögur af síðustu fimm mörkum fyrri hálfleiks á síðustu sjö mínútum hálfleiksins.

Varnarleikur íslenska liðsins var góður í fyrri hálfleik og markvarslan hjá Björgvin Páli var viðunandi.  Tvær brottvísanir á Elvar Örn og aðrar tvær á Arnar Frey Arnarsson léttu hinsvegar ekki róðurinn fyrir síðari hálfleikinn. Munurinn lá í hraðaupphlaupunum sem þýska liðið fékk og nýtti vel.

Aron Pálmarsson fór af leikvelli þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Hann fékk högg á sig nokkru áður og sennilega  meiðst.

Þjóðverjar komust í 16:11 snemma í síðari hálfleik og virtust vera að taka leikinn í sínar hendur. Þrjú íslensk mörk í röð breyttu stöðunni í 16:14. Vonir glæddust á nýjan leik.

 Í stöðunni 17:15 átti íslenska liðið þess kost að minnka muninn í eitt mark en allt kom fyrir ekki og Þjóðverjar bættu við átjánda markinu.

Andy Wolff varði vítakast Arnórs Þórs  á 13 mínútu í stöðunni 19:16. Íslenska liðið vann boltann í baka í næsta vörn. Síðari hálfleikur var hálfnaður þegar staðan var orðinn 20:16, Þjóðverjum í vil og þeir svo sannarlega með alla stemninguna með sér. Þegar við bættist að ekkert féll með íslenska liðinu var ljóst að við ramman reip væri að draga.

Sjö mínútum fyrir leikslok var munurinn orðinn fimm mörk, 22:17. Þjóðverjar sungu og dönsuðu á pöllunum. Sigur þeirra var innan seilingar.

Fyrst og síðast fer leikurinn inn í reynslubankann hjá íslensku landsliðsmönnunum. Að þessu sinni var þýska liðið of stór biti, ekki síst við þessar aðstæður þar sem reynslan hefur mikið að segja. Svo var það mikil blóðtaka fyrir liðið að Aron skyldi meiðast snemma leiks og geta ekki tekið þátt meir. Reynsla hans vegur þungt við þessar aðstæður þar sem sóknarleikurinn var borinn upp af tvítugum piltum.

Varnarleikur íslenska liðsins var góður allan leikinn en því miður þá áttu ungu mennirnir ekki réttu svörin í sóknarleiknum. Sennilega er til of mikils ætlast af þeim ennþá. En þeir lögðu aldrei árar í bát og reyndu hvað þeir gátu allt til leiksloka.

Þýskaland 24:19 Ísland opna loka
60. mín. Kai Häfner (Þýskaland) skoraði mark
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert