Óvæntur sigur Brasilíu gegn Króatíu

Felipe Borges átti frábæran leik gegn Króötum og skoraði fimm …
Felipe Borges átti frábæran leik gegn Króötum og skoraði fimm mörk. AFP

Brasilía gerði sér lítið fyrir og vann þriggja marka sigur gegn Króatíu í milliriðli 1, riðli okkar Íslendinga, á HM í handknattleik í Köln í dag en leiknum lauk með 29:26-sigri Brasilíu. Brasilía byrjaði leikinn mun betur og var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13.

Króatar hafa aldrei áður tapað fyrir Brasilíu í handknattleik karla.

Króatar reyndu hvað þeir gátu að koma til baka í síðari hálfleik en áttu erfitt með að vinna upp forskot Brasilíu. Króötum tókst að minnka muninn niður í eitt mark í 26:25 þegar átta mínútur voru til leiksloka en lengra komust þeir ekki og Brasilía fór með óvæntan sigur af hólmi.

Felipe Borges var markahæstur í liði Brasilíu með fimm mörk en hjá Króötum var það Domagoj Duvnjak sem skoraði mest eða sex mörk. Með sigrinum er Brasilía komin í fimmta sæti milliriðils 1 í 2 stig og upp fyrir okkur Íslendinga en Króatía er áfram í þriðja sæti riðilsins með 4 stig.

Í milliriðli 2 vann Ungverjaland fimm marka sigur gegn Túnis þegar liðin mættust í Herning en lokatölur urðu 26:21, Ungverjalandi í vil. Ungverjar leiddu allan leikinn og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik og var munurinn á liðunum sex mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Zsolt Balogh fór á kostum í liði Ungverja sem eru í þriðja sæti milliriðils 2 með 3 stig en Balogh skoraði 9 mörk í leiknum. Túnis er stigalaust í neðsta sæti riðilsins en Mosbah Sanai og Oussama Boughanmi skoruðu fimm mörk hvor fyrir Túnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert