Brassarnir steinlágu

Hart barist í leik Spánar og Brasilíu í kvöld.
Hart barist í leik Spánar og Brasilíu í kvöld. AFP

Spánverjar burstuðu Brasilíumenn 36:24 í milliriðli 1 á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Lanxess-Arena í Köln í Þýskalandi í kvöld.

Brasilíumenn, sem unnu frábæran sigur gegn Króötum í gær, áttu ekki roð í sterkt lið Spánverja sem hafði tögl og hagldir allan tímann. Spánverjar voru sex mörkum yfir í hálfleik 19:13 og ljóst var að stefndi í stórsigur þeirra.

Spánverjar halda enn í smá von um að komast í undanúrslitin. Þeir eru með 4 stig og mæta Þýskalandi í lokaumferðinni á miðvikudag. Frakkar eru efstir með 7 stig, Þjóðverjar eru með 5 og Króatar og Spánverjar hafa 4 en í kvöld mætast Þjóðverjar og Króatar. Brasilíumenn eru með 2 stig og Íslendingar eru án stiga en Ísland og Brasilía eigast við á miðvikudaginn.

Mörk Spánar: Aitor Arino 6, Ferran Sole 6, Joan Canellas 5, Aleix Gomez 4, Julen Aguinagalde 3, Gedeon Guardiola 3, Angel Fernandez 2, Raul Entrerrios 2, Alex Dujshebaev 2, Losu Goni 2, Daniel Sarmiento 1.

Mörk Brasilíu: Haniel Langaro 4, Raul Nantes 4, Gustavo Rodrigues 3, Thiagus Santos 2, Alexandro Pozzer 2, Fabio Chiuffa 2, Rudolph Hackbarth 2, Leonardo Tercariol 1, Guilherme Valadao 1, Jose Toledo 1, Felipe Borges 1, Vinicius Teixeira 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert