Mætum vonandi eins og stóðhestar

Ólafur Gústafsson (23) og Elvar Örn Jónsson stöðva Þjóðverjann Paul …
Ólafur Gústafsson (23) og Elvar Örn Jónsson stöðva Þjóðverjann Paul Drux í leik Íslands og Þýskalands á HM síðasta laugardag. AFP

„Menn mæta fullir sjálfstrausts í lokaleikinn á HM. Það þarf enginn að spara sig í þeim efnum,“ sagði Ólafur Gústafsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, fyrir lokaæfingu liðsins á þessu heimsmeistaramóti í Lanxess-Arena í Köln síðdegis í dag.

Á morgun klukkan 14.30 leikur íslenska liðið áttunda og síðasta leik sinn á móti gegn landsliði Brasilíu og getur með sigri náð níunda eða tíunda sæti á heimsmeistaramótinu. „Menn mæta vonandi eins og stóðhestar í leikinn og reiðbúnir að klára sig alveg,“ sagði Ólafur sem tók við fyrirliðastöðunni þegar Aron Pálmarsson meiddist gegn Þjóðverjum á laugardaginn og varð að draga sig út úr hópnum.

„Ég er í leiðtogahlutverki í vörninni þannig að það eina sem bætist við nú þegar ég hef tekið við fyrirliðabandinu er ein eða tvær ræður og extra pepp í leikjunum. Annars erum við að vinna sem ein heild, hver sem er fyrirliði. Það mikilvægast er að við náum að þjappa okkur saman og ljúka mótinu sem ein liðsheild með sigri,“ sagði Ólafur Gústafsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við mbl.is í Köln síðdegis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert