Stöðugur stígandi allt mótið

Ólafur Andrés Guðmundsson.
Ólafur Andrés Guðmundsson. AFP

„Við höfum tilfinningu fyrir þeim eftir leikinn við þá í Ósló rétt fyrir HM. Við höfum farið vel yfir þann leik og velt fyrir okkur hvað gekk vel og hvað ekki. Þar af leiðandi rennum við ekki blint í sjóinn,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, leikmaður íslenska landsliðsins, í samtali við mbl.is í Köln síðdegis í dag áður en lokaæfing landsliðsins á heimsmeistaramótinu fór fram.

Fram undan á morgun er viðureign við brasilíska landsliðið sem mun skera úr um hvort liðið hafnar í neðsta eða næstneðsta sæti annars milliriðils mótsins. Flautað verður til leiks í Lanxess-Arena í Köln klukkan 14.30.

„Mér finnst leikur Brasilíumanna hafa batnað síðan við mættum þeim í Ósló. Þeim hefur tekist að fínstilla leik sinn, ekki síst frábæra fimm einn vörnina sem mörg lið hafa lent í vandræðum með á mótinu fram til þessa. Auk þess hafa bæði örvhenta og rétthenta skyttan í liðinu vaxið mikið og leikið vel. Segja má að stöðugur stígandi hafi verið í leik brasilíska liðsins eftir því sem á mótið hefur liðið,“ sagði Ólafur Andrés, næstleikjahæsti leikmaður landsliðsins um þessar mundir með 108 landsleiki.

„Leikurinn í Noregi var vináttuleikur og þess vegna ekki alveg fullkomlega marktækur en vissulega gefur hann okkur vissa tilfinningu fyrir spili brasilíska liðsins. Það er alltaf kostur. Hugarfarið í leiknum verður annað á morgun þar sem nú erum við mættir á heimsmeistaramót,“ sagði Ólafur Andrés.

„Fyrir okkur snýst leikurinn um níunda sætið og hjá Brasilíumönnum snýst leikurinn um að ná jafnvel sjöunda sætinu með sigri á okkur.

Fyrir okkur snýst leikurinn um að gera vel fyrir Ísland. Það er hugur í mönnum eftir tveggja daga frí. Ég held að menn mæti ferskir til leiks og leggi allt í sölurnar. Bæði líkamlega og andlega var gott að fá tækifæri til að kúpla sig aðeins út úr handboltanum í skamman tíma. Við ætlum að klára mótið með stæl,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik karla, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert