Brassarnir eru í skýjunum

Alexandro Pozzer að skora fram hjá Björgvini Páli Gústavssyni í …
Alexandro Pozzer að skora fram hjá Björgvini Páli Gústavssyni í Köln í dag. AFP

Brasilíumenn eru í skýjunum með árangur sinn á heimsmeistaramótinu í handknattleik en með sigrinum gegn Íslendingum í dag tryggðu þeir sér 9. sætið á mótinu.

Þetta er besti árangur Brasilíumanna í sögunni en þeir unnu fimm af átta leikjum sínum á mótinu og lið eins og Króatía, Ísland, Serbía og Rússland urðu að láta í minni pokann fyrir S-Ameríkuliðinu.

„Ég er mjög ánægður með mína frammistöðu og liðs míns því við höfum skrifað nýjan kafla í sögu brasilíska handboltans,“ sagði Cesar Almeida, markvörður Brasilíumanna, eftir sigurinn gegn Íslendingum í Köln í dag.

Brassarnir héldu í vonina um að ná að spila um 7. sætið og eiga þar með möguleika á að ná sæti í umspili Ólympíuleikanna en þar sem Króatar höfðu betur gegn heimsmeisturum Frakka varð það ekki að veruleika.

„Að enda í níunda sæti á HM er frábær árangur og við erum mjög stoltir af árangri okkar. Þetta er besti árangur liðs frá Suður-Ameríku á HM frá upphafi. Við viljum verða betri og betri og þessi árangur okkar er góður fyrir íþróttirnar í Brasilíu. Það eru ekki miklir peningar í handboltanum í Brasilíu en ég vona að við munum vekja athygli á okkur eftir þennan árangur og verða þekktari,“ sagði Almeida.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert